144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

um fundarstjórn.

[15:41]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Það er ástæða fyrir þessari beiðni hv. formanna stjórnarandstöðuþingflokkanna. Ríkisendurskoðun hefur árum saman verið með sterkar leiðbeiningar um tiltekna framkvæmd af hálfu stjórnsýslunnar. Hún hefur sagt það mjög skýrt að hún vill að eftirlit og framkvæmd sé aðskilið. Hér er gengið þvert gegn því. Þess vegna er fullkomlega eðlilegt að stjórnarandstaðan vilji fá úr því skorið hvert er mat Ríkisendurskoðunar, sem er stofnun Alþingis, á því hvað í þessu felst og hvort í þessu sé ávinningur og hvort þarna séu menn á réttri leið.

Hvað varðar ummæli hæstv. forseta hér áðan er það einfaldlega þannig að í mínum huga er hann alvís, hann er hinn stóri dómur. Hæstv. forseti úrskurðaði að málið væri tækt til þess að fara í þennan farveg. Þá skiptir engu máli þótt hæstv. forseti hafi núna einhverjar efasemdir um það mál. Það getur hæstv. forseti bara rætt í einrúmi við hv. þm. Einar K. Guðfinnsson.