144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

um fundarstjórn.

[15:54]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætla að hnykkja aðeins betur á því sem ég sagði áðan sem fram kemur í handbók frá fjármálaráðuneytinu um sameiningu stofnana, með leyfi forseta:

„Sé gengið út frá því að ætlunin sé að byggja nýja stofnun á mannauði þeirra stofnana sem verða sameinaðar, þarf að hugleiða vandlega á öllum stigum ferlisins hvaða áhrif sameiningin hefur á starfsmenn og hvað þeir bera úr býtum.“

Ég bið hæstv. forseta að taka vel eftir. Í framhaldinu segir:

„Ekki er nóg að skoða eingöngu hverju breytingarnar skila hlutaðeigandi stofnun, ríkissjóði, notendum þjónustunnar eða þeim sem standa fyrir þeim.“

Virðulegi forseti. Eftir að hafa lesið kaflann um starfsmannamál og hvernig það er hugsað leyfi ég mér að efast um að hægt sé að gera þetta á þann hátt sem ráðherra hugsar sér. Ráðningarsamningi við starfsmenn Þróunarsamvinnustofnunar er rift og það hlýtur að koma til biðlaunaréttur rétt eins og gerst hefur í öllum stofnunum sem við höfum verið að sameina. Þess vegna finnst mér umsögn efnahagsskrifstofu (Forseti hringir.) fjármálaráðuneytisins um kostnaðinn (Forseti hringir.) við frumvarpið ekki vera (Forseti hringir.) nægilega góð og (Forseti hringir.) tel að hún krefjist meiri skoðunar.