144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[16:09]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna en vil beina til hans einni spurningu sérstaklega á þessu stigi málsins. Það kemur nú hvergi fram með skýrum hætti í almennum athugasemdum við frumvarpið, en í athugasemdum við 3. gr. er rakið að mikilvægt sé að þverpólitísk samstaða sé um meginmarkmið í þróunarsamvinnu. Það vekur mér því nokkra furðu með hvaða hætti gengið er fram í þessu máli. Hvers vegna ákveður hæstv. ráðherra að eiga ekki samstarf við aðra þingflokka um undirbúning þessa máls og upplegg þess?

Ég ætla bara að segja dæmisögu. Þegar ég var varaformaður utanríkismálanefndar árið 2008 ákváðum við þáverandi hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður nefndarinnar, að við mundum leita samstarfs við stjórnarandstöðuna í málinu. Ég átti marga fundi við forustumenn Framsóknarflokksins og Vinstri grænna sem þá voru í stjórnarandstöðu um það mál, við gerðum allar þær breytingar sem stjórnarandstaðan vildi gera á frumvarpinu og var það samhljóða samþykkt hér á Alþingi. Hvers vegna er ákveðið að rjúfa þá þverpólitísku (Forseti hringir.) samstöðu um þróunarsamvinnu með þessu frumvarpi?