144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[16:14]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég á svolítið erfitt með að skilja þetta frumvarp og þörfina á því. Mér finnst þetta svolítið mótsagnakennt. Það er talað vel um Þróunarsamvinnustofnun í rökstuðningnum fyrir frumvarpinu en samt á að leggja hana niður. Af hverju er það? Ýmislegt er tilgreint í rökstuðningi með frumvarpinu, eða í greinargerðinni, um þætti í þróunarsamvinnu sem þurfa að vera í lagi, en samt getur maður ekki séð nein dæmi um að þeir hlutir séu ekki í lagi núna. Talað er um að þróunarsamvinna hafi breyst og orðið flóknari og að auka þurfi umsvif í þróunarsamvinnu. Eru það ekki rök með því að hafa þau einmitt í einni stofnun frekar en að færa þau inn í ráðuneytið? Þetta er svolítið undarlegt og margar spurningar vakna. Ég ætla að halda mig við eina.

Í greinargerðinni stendur að með því að færa starfsemi ÞSSÍ inn í ráðuneytið sé verið að tryggja að öll samskipti við erlend ríki (Forseti hringir.) og stofnanir á sviði þróunarsamvinnu séu samstillt og (Forseti hringir.) í takti við utanríkisstefnu Íslands. Hefur verið einhver (Forseti hringir.) misbrestur í þessu? Getur ráðherra nefnt dæmi um að (Forseti hringir.) þetta hafi ekki tekist og hver eru þau?