144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[16:15]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í þessu er fyrst og fremst um það að ræða að sjá til þess að allt sem við segjum á alþjóðlegum vettvangi sem kemur að þróunarmálum — að stækka þann hóp sem talar í raun fyrir þeirri stefnu sem við leggjum áherslu á. Ekki er hægt að segja að komið hafi til mikilla árekstra milli þeirra sem tala á vettvangi um málstað Íslands, en hins vegar sjá allir, held ég, að ef fleiri aðilar fylgja eftir sömu skilaboðum og vinna saman að stefnumörkun, að framtíðartónlistinni, að því hvernig við ætlum að nálgast ákveðin verkefni, eins og ég nefndi hér áðan, þeim mun sterkari komum við út út á við. Það er mjög mikilvægt að við samnýtum og nýtum betur þann mannafla og þann mikla kraft sem er í öllu starfsfólki sem vinnur að þróunarmálum á Íslandi, hvort sem það er hjá ÞSSÍ eða utanríkisráðuneytinu. Þarna viljum við einfaldlega sjá til þess að það fari ekkert milli mála hverjir flytja þann boðskap sem Ísland hefur fram að færa á hverjum tíma.