144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[16:16]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta birtist mér eins og verið sé að reyna að laga eitthvað sem er ekki brotið. Það er nú þegar samhljómur í máli þeirra sem tala fyrir þróunarsamvinnustefnu og utanríkisstefnu Íslands. Það kemur fram í svari ráðherrans að það hefur ekki verið vandamál. Þá finnst mér þessi punktur ekki vera góður rökstuðningur fyrir því að við þurfum endilega að breyta þessu skipulagi. Ég held að það sé margt sem geti breyst til verri vegar með því að taka þetta úr stofnuninni.

Mig langar að spyrja: Það að þróunarsamvinna hafi mögulega breyst, að henni sé skipt í fjölþjóðlega þróunarsamvinnu og tvíhliða þróunarsamvinnu — eru það ekki allt nokkuð góð rök fyrir því einmitt að hafa þróunarsamvinnuna, eins víðtæka og hún er og eins erfiða og hún er, inni í stofnun, undir ráðuneytinu? Er það ekki þannig sem við umgöngumst flest flókin viðfangsefni? Er þetta ekki stílbrot á því? Ég nefni (Forseti hringir.) vegagerð og samgöngumál og hafrannsóknir (Forseti hringir.) og hitt og þetta — allt sem er svo yfirgripsmikið og flókið að það er í sérstakri stofnun. Af hverju ekki í þessu tilviki?