144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[16:19]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Segja má að meginröksemdirnar fyrir þeirri breytingu sem er lögð til í frumvarpinu séu almennar röksemdir um færri einingar í stjórnkerfinu. Það sem mig langar hins vegar að spyrja hæstv. ráðherra að er: Kom þá ekki til greina að færa framkvæmd þróunarsamvinnu, sem er í utanríkisráðuneytinu, til Þróunarsamvinnustofnunar þannig að ráðuneytin fari fyrst og fremst með stefnumótunar- og eftirlitshlutverk, en öll framkvæmd væri í Þróunarsamvinnustofnun? Eitt af því sem mér þykir vera athugavert við þessa tillögu er að með henni er verið að leggja til að stefnumótun, framkvæmd og væntanlega eftirlit sé allt á einni og sömu hendi.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Finnst honum það fyrirkomulag ganga? Hver á annars að hafa eftirlit með þróunarsamvinnunni ef ekki utanríkisráðuneytið? Og ef utanríkisráðuneytið er sjálft orðið framkvæmdaaðili í málinu, hvernig getur ráðuneytið þá haft eftirlit með sjálfu sér?