144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[16:27]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í heildstæðri úttekt sem gerð var á alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands, í aðdraganda þess að Ísland gerðist aðili að þróunarsamvinnunefnd Efnahags- og framfarastofnunarinnar, var meðal annars lagt til að íslensk stjórnvöld legðu mat á skipulag og fyrirkomulag þróunarsamvinnu út frá því hvernig hámarksárangur og skilvirkni væru tryggð með tilliti til smæðar landsins. Það er nákvæmlega það sem við gerðum og það sem við fórum út í. Við fórum í gegnum það hvernig við gætum svarað þessum vangaveltum, ef ég get kallað það svo, ábendingum, spurningum, uppástungum, hvað menn kalla það, í þessari ágætu úttekt. Niðurstaðan varð þessi til þess meðal annars að bregðast við því hvernig við getum hámarkað árangur, hvernig við getum bætt skilvirkni og hvernig við getum út frá smæð landsins einfaldlega nýtt betur þá takmörkuðu „rísorsa“ sem við höfum, svo að ég sletti nú, afsakið, herra forseti.