144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[16:46]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir eðlilegar og rökréttar spurningar. Ég tel að engin þörf sé á því að innlima forsetadæmið í utanríkisráðuneytið á Rauðarárstíg vegna þess að mér sýnist eiginlega að hið þveröfuga hafi gerst, að búið sé að innlima utanríkisráðuneytið og gera það að einhvers konar beitarhúsi hjá forsetadæminu. Það er önnur saga.

Það er eðlilegt að hv. þingmaður spyrji þessara spurninga. Ég hnaut um þetta líka, alveg eins og fleiri menn í þessari umræðu. Þegar menn segja að nauðsynlegt sé að ráðast í breytingu til að tryggja að Ísland tali einni röddu er ekki hægt annað en að gagnálykta að á bak við það sé einhvers konar andlag þar sem einhver, þá væntanlega Þróunarsamvinnustofnun, hafi talað með öðrum hætti en utanríkisstefnan er. Ég kannast aldrei við það og ég tel að hæstv. ráðherra, sem væntanlega fær þessa spurningu síðar í dag, geti ekki bent neitt til þess. Það mætti jafnvel segja að þarna færi greinargerðin hættulega nálægt því að dylgja um Þróunarsamvinnustofnun.

Ég get hins vegar upplýst hv. þingmann um það að sú stofnun hefur aukið hróður Íslands, hún hefur bætt orðstír utanríkisráðuneytisins og hún hefur sótt mikið magn af peningum út fyrir Ísland. Stofnunin hefur til dæmis verið fengin til þess að verja töluvert háum upphæðum sem önnur ríki vilja verja til tiltekinnar þróunarsamvinnu, sem tengist jarðhita. Það var stofnunin og starfslið hennar, ekki ég á þeim tíma heldur starfslið hennar sem tókst að fá, mig minnir að að endingu væri það nálægt 700 millj. kr. til að leggja við framlag Íslands í ákveðnu jarðhitasamstarfi í Austur-Afríku. Þvert á móti hefur því Þróunarsamvinnustofnun magnað upp rödd utanríkisráðuneytisins en aldrei talað til hliðar við það.