144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[16:48]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst það góður punktur sem hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir kom með í dag: Hvar hættum við í raun að innlima stofnanir í ráðuneyti? Ætti Vegagerðin ekki að vera í innanríkisráðuneytinu? Hvar ætlum við að draga þau mörk? Það er spurning hvort hv. þingmaður hafi skoðun á því.

Í greinargerðinni er vitnað til skýrslu þróunarsamvinnunefndar, svonefndrar DAC-skýrslu, og þess að Ísland sé hvatt til að skoða skipulag þróunarsamvinnu. En var í þeirri skýrslu lagt til að Þróunarsamvinnustofnun yrði lögð niður og verkefni hennar flutt í ráðuneyti? Það er ekki endilega verið að leggja það til þótt menn eigi að skoða skipulag þróunarsamvinnunnar. Mér finnst þarna verið að ýja svolítið að því. Veit hv. þingmaður hvort það standi til að þróunarsamvinnunefnd geri úttekt á íslenskri þróunarsamvinnu á næstu árum? Ættum við ekki að bíða eftir þeirri úttekt ef hún er væntanleg?