144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[16:49]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nákvæmlega. Við ættum auðvitað að bíða eftir henni, því að staðreyndin er sú að búið er að biðja um slíka rýni. Hún er í gangi hjá þróunarsamvinnunefnd OECD og hún á að koma 2016. Ef niðurstaða hennar væri þannig að hún hnigi að hinu sama og frumvarp hæstv. ráðherra væru það mjög sterk rök í málinu. Ég mundi hlusta á þau vegna þess að ég tek mikið mark á DAC. Ég hef lesið fjölmargar skýrslur þess og átti á sínum tíma viðræður við þá sem þar stýra og tek á mark á því. En það er ekki verið að gera hér.

Svo er rétt að rifja upp að skýrslan sem upphaflega var gerð, áfangaskýrsla Þóris Guðmundssonar, gerði ekki ráð fyrir þessari niðurstöðu heldur einungis að safna því öllu á einn stað. Og það kemur að ég tel fyllilega til greina að flytja öll marghliðaverkefnin úr utanríkisráðuneytinu, dreifa valdinu yfir til Þróunarsamvinnustofnunar. En það væri í andstöðu (Forseti hringir.) við nokkra mjög sterka embættismenn í utanríkisráðuneytinu sem hafa alltaf lagt að öllum ráðherrum að gera þetta, meðal annars mér.