144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[16:58]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni ræðu hans. Mig langar að spyrja hann, verandi fyrrverandi utanríkisráðherra, um fyrirkomulag þessa málaflokks í heild. Nú er það svo að ég aðhyllist sjálf svolítið þá lífsspeki að ef eitthvað er ekki bilað er ekki ástæða til að gera við það. Það á að einhverju leyti við um þetta frumvarp. Ég velti því fyrir mér hvað nákvæmlega sé svo bilað við Þróunarsamvinnustofnun eins og hún er núna að ástæða þyki til að gera við hana.

Mig langar að spyrja hv. þingmann sem gegndi þessu embætti og hefur farið yfir það í ræðu sinni að svipaðar tillögur hafi komið inn á hans borð, þ.e. að færa Þróunarsamvinnustofnun undir utanríkisráðuneytið, og að hann hafi hafnað þeim tillögum: Telur hann þörf á skipulagsbreytingum hvað varðar fyrirkomulag þróunarsamvinnu hér á landi? Telur hann að þau rök sem færð eru fram um að með þessu náist einfaldari stjórnsýsla, aukin samræming og eitthvað slíkt eigi í raun og veru ekki við í þessu tilfelli þar sem samræming sé nægjanleg með samstarfi Þróunarsamvinnustofnunar og utanríkisráðuneytis? Eða mundi hann vilja sjá einhverjar aðrar breytingar gerðar á fyrirkomulagi þróunarsamvinnu? Telur hann fyrirkomulagið eins og það er það besta? Það er eiginlega spurning mín til hv. þingmanns, því að þær spurningar sem varpað hefur verið fram, m.a. af mér og hv. þingmanni, í skýrslubeiðninni sem ég nefndi áðan, skipta máli. Þær snúast um röksemdirnar fyrir breytingunum. Það er líka mikilvægt fyrir okkur sem eigum eftir að vinna með þetta mál að velta fyrir okkur: Ef breytinga er þörf, hver er þá rétta leiðin? Þess vegna spyr ég hv. þingmann: Er breytinga þörf að hans mati?