144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[17:02]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Niðurstaða hv. þingmanns er að ekki þurfi neinar sérstakar breytingar, við séum á góðri leið. En hann nefnir sérstaklega aðkomu þingsins og eitt af því sem ég hjó eftir í skýrslu Þóris Guðmundssonar, sem er undanfari þessa frumvarps og til hennar vísað í greinargerð með frumvarpinu, er að mikilvægt sé að hafa nálægð ráðherra við málaflokkinn.

Nú kynnu menn að hafa ólíkar skoðanir á því í ljósi þess að það er mjög mikilvægt líka að tryggja þverpólitíska samstöðu um þróunarsamvinnu og því sé eðlilegra að vinna að því að efla hana sem felist ekki endilega í meiri nálægð ráðherra á hverjum tíma við málaflokkinn.

Mig langar að spyrja hv. þingmann og fyrrverandi ráðherra: Hvað finnst honum um þau rök? Telur hann að það þurfi meiri nálægð ráðherra á hverjum tíma við málefni þróunarsamvinnu? Er ekki eðlilegra, eins og hv. þingmaður sagði áðan, að skoða betur aðkomu þingsins? Mér finnst það í raun alls ekki leyst með þessu frumvarpi. Það hefði þá verið nær að horfa til þess að ganga alla leið og setja fullbúna þingnefnd í það að fara með málefni þróunarsamvinnu (Forseti hringir.) eða það sem eðlilegra væri, að utanríkismálanefnd veitti því jafnvel meira rými í daglegri vinnu sinni í þinginu.