144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[17:03]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ja, herra trúr. Eðli mannsins er þannig að allir starfsmenn og allir embættismenn og allir málaflokkar vilja helst fá að sitja með ráðherrann í kjöltu sinni. Þeir vilja allir vera í sem mestri nálægð við ráðherrann hverju sinni. Ég held að þetta viðhorf og sú fróma ósk sem kemur fram hjá ágætum skýrsluhöfundi mótist nokkuð af því að hann sjálfur stendur föstum fótum, báðum tveimur í jarðvegi þróunarsamvinnu, það er hans starf hjá Rauða krossinum. Eðlilega hefur hann því langanir af þessu tagi og þær eru heilbrigðar.

Sjálfum fannst mér ekki skorta á nálægð og fannst ekki of mikil fjarlægð við þennan málaflokk og ég tel að hæstv. ráðherra hafi sýnt það í verki, hann hefur ferðast til þessara landa og það er fínt, undir það ber að ýta. En nálægðin ætti fremur, hv. þingmaður, að vera við þingið. Það er stundum þar sem skortir svolítinn áhuga á málaflokknum og þekkingunni.