144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[17:05]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp sem felur í sér niðurlagningu Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í núverandi mynd og að hún verði færð undir utanríkisráðuneytið. Eins og fram hefur komið hefur í gegnum söguna verið lögð talsverð áhersla á að ná fram þverpólitískri sátt um hvert eigi að stefna í þróunarsamvinnu en því miður er það svo að á síðustu árum hefur orðið ákveðið rof á þeirri sátt.

Ég vil rifja það upp að samþykkt var í þinginu aðgerðaáætlun um þróunarsamvinnu með einu mótatkvæði en annars öllum greiddum atkvæðum. Því miður hefur það orðið raunin í tíð núverandi ríkisstjórnar að horfið hefur verið frá þeirri samþykktu þingsályktun og hún skorin niður þannig að Ísland er því miður enn þá langt frá því markmiði sem við höfum sett okkur og það er að ná markmiðum Sameinuðu þjóðanna um að ákveðið hlutfall af vergri landsframleiðslu renni til þróunarsamvinnu, eða 0,7%. Við erum enn þá langt frá því markmiði og færumst ekki nær því þar sem ekki hefur verið staðið við þær samþykktir sem hafa verið gerðar. Ég hafði þá trú þegar aðgerðaáætlunin var samþykkt með þessu eina mótatkvæði og aðrir voru með, að með því værum við enn og aftur að ná þverpólitískri sátt um þróunarsamvinnu, þannig að ég vil byrja á því að lýsa yfir miklum vonbrigðum með þá stöðu sem hefur skapast. Við færumst ekki nær markmiðinu og málaflokkurinn hefur verið skorinn niður þvert á vilja hv. þingmanna úr öllum flokkum. Að einhverju leyti get ég svo tekið undir þau orð hv. þm. Árna Páls Árnasonar sem benti fyrr í umræðunni á að það væri líka mikilvægt að tryggja þverpólitíska sátt um skipulagið.

Ég sagði áðan að almennt hefði ég þá stefnu að ef hlutirnir væru ekki bilaðir væri ég ekki mikið að gera við þá enda skapaði slíkt oft ýmis önnur óvænt verkefni sem væri ekkert sérstaklega gaman að fást við. En setjum sem svo að við viljum endurskoða skipulag þróunarsamvinnunnar, þá finnst mér eðlilegt að við spyrjum okkur gagnrýnna spurninga um hvað vinnst með því að sameina þróunarsamvinnu undir einn hatt. Þar hef ég þegar bent á og vil ítreka það að mér finnst það ekki vera fullnægjandi rök fyrir því að sameina þetta allt undir einn hatt að Ísland tali þá einum rómi þar sem ég hef ekki séð nein dæmi um að ekki sé fullt samræmi og ekki góð samvinna milli utanríkisráðuneytisins og Þróunarsamvinnustofnunar eins og staðan er í dag. Manni finnst nánast eins og þarna sé verið að fylla upp í einhvern kvóta um fækkun opinberra stofnana, þetta sé til þess gert að fækka opinberum stofnunum, því maður hefur ekki orðið var við annað en það sé gott samræmi milli ráðuneytisins annars vegar og stofnunarinnar hins vegar. Það er vissulega hægt að færa einhver almenn rök að það sé minni hætta á tvíverknaði, minni þörf á samskiptum milli stofnana o.s.frv. En meðan við fáum ekki dæmi um slíkt er ekki hægt að líta á það sem raunveruleg rök í málinu.

Nefnt er að þetta hafi fyrst og fremst verið tilhneigingin víða annars staðar, þ.e. færa þróunarsamvinnu undir utanríkisráðuneyti á hverjum stað. Þá er mjög mikilvægt að utanríkismálanefnd fari mjög vel yfir reynslu manna og mat á þeim breytingum. Það hefur til að mynda verið vitnað til Hollands. Þar er nýlega komin fram skýrsla sem ekki hefur verið ákveðið að taka mark á þar sem varað er við þeirri aðgerð sem ráðist var í í Hollandi, þ.e. færa þróunarsamvinnustofnun þar í landi undir utanríkisráðuneyti. Þar var birt gagnrýnin skýrsla á það sem hefur samt ekki náð að hafa áhrif til breytinga á stefnunni.

Gott og vel. Við erum líka með fjölmörg önnur dæmi frá öðrum löndum eins og til að mynda Svíþjóð sem er með sérstaka stofnun utan um þróunarsamvinnu þannig að þarna getum við farið yfir rökin með og á móti.

Við getum líka velt fyrir okkur rökum á móti því að færa stofnun undir ráðuneytið. Þar getum við haft ólíkar skoðanir. Sumir segja að nálægð við ráðherra sé mikilvæg til þess að tryggja pólitíska forustu í málinu, en fjarlægð frá ráðherra getur líka skapað aukna sátt um stefnuna og starfsemina og skapað ákveðinn stöðugleika í stefnunni milli ólíkra ríkisstjórna. Þannig sé stofnunin sjálfstæð og ráðuneyti, eins og við öll vitum sem hér erum, eru ólík öðrum opinberum stofnunum. Þar verða talsvert meiri breytingar til að mynda við ríkisstjórnarskipti en í svokölluðum fagstofnunum og það er mér umhugsunarefni, eftir að hafa kynnt mér starfsemi a.m.k. eins ráðuneytis allítarlega, að hlutverk fagstofnana hvers ráðuneytis er einmitt að vera framkvæmdaraðilinn en ráðuneytið á frekar að vera með stefnumótunar- og eftirlitshlutverk. Ég set mjög stórt spurningarmerki við að færa framkvæmdahlutann inn í ráðuneytið.

Ég velti því líka fyrir mér almennri starfsmannastefnu í ráðuneytinu. Nú er það eitthvað sem ég ítreka að ég þarf að fá tækifæri til að skoða betur í nefndinni, en hvernig mun starfsmannastefna utanríkisráðuneytis sem byggir á ákveðinni framgangshefð og flutningsskyldu og ákveðnu metorðakerfi samræmast stofnun sem er með annars konar starfsmannastefnu? Þetta eru spurningar sem við þurfum að fá skýr svör við.

Það er líka annað sem ég velti fyrir mér. Þróunarsamvinnustofnun hefur að sjálfsögðu sinnt mikilli upplýsingagjöf um þróunarmál. Ég set líka spurningarmerki við það hvernig upplýsingagjöf um þróunarmál verður háttað þegar stofnunin er komin undir ráðuneytið. Það er allt annars konar upplýsingagjöf sem fer fram hjá ráðuneytum þar sem hið pólitíska vald er nálægara en hjá hinum einstöku fagstofnunum. Við getum sagt að þær hafi meira frelsi í upplýsingagjöf, meira svigrúm til þess að koma upplýsingum á framfæri með vefritum og öðru. Ég velti því fyrir mér hvernig það mun fara með Þróunarsamvinnustofnun ef hún er færð undir utanríkisráðuneytið og utanríkisráðuneytið fer að senda frá sér upplýsingarnar. Erum við þá ekki að breyta dálítið upplýsingagjöf ráðuneytisins?

Það er alveg ljóst að ég set mjög mörg spurningarmerki við þessar fyrirætlanir. Ég velti líka fyrir mér hvort ekki sé ástæða til þess að velta fyrir okkur efnisinnihaldinu, þ.e. hvert hlutverk stofnunarinnar hefur verið og er núna ætlunin að færa undir utanríkisráðuneytið. Hvert er hlutverk Þróunarsamvinnustofnunar? Jú, það er að standa að tvíhliða þróunarsamvinnu þannig að við sem erum velmegandi ríki og trónum ofarlega á öllum lífsgæðalistum getum lagt okkar af mörkum á sem skilvirkastan og árangursríkastan hátt í því að styðja við fátækari ríki, styðja við innviði, styðja við fæðingarhjálp, byggja brunna til þess að geta aukið lýðheilsu, til þess að geta aukið forvarnir, standa fyrir menntun, þetta er innihaldið. Hljótum við sem hér störfum ekki alltaf að hafa að leiðarljósi að þær breytingar sem við gerum á stjórnsýslunni þjóni innihaldinu? Þær hljóta að eiga að þjóna inntakinu. Miðað við þann árangur sem Þróunarsamvinnustofnun hefur náð í þeim verkefnum sem við höfum margoft farið yfir hefur það tekist. Ég nefndi sem dæmi verkefnin í Malaví af því að þau hef ég líklega kynnt mér best, en þau eru líka í fleiri löndum, t.d. Úganda. Sú vinna hefur verið árangursmetin með þeim hætti að ég hef dáðst að. Það er ekki bara verið að mæla hversu margir karlar eða kerlingar voru send til viðkomandi ríkis, það er ekki verið að telja fjölda brunna eða telja peninga, heldur er spurt: Batnaði staða heilbrigðismála á svæðinu eftir að við fórum af stað með þetta verkefni? Fæddu fleiri konur lifandi börn og lifðu af fæðinguna? Fækkaði malaríutilfellum á svæðinu? Þetta eru spurningarnar sem er verið að spyrja. Þetta er hinn raunverulegi árangur sem við sjáum af okkar starfi.

Þegar við sjáum að árangurinn hefur bara verið ansi góður af þessum verkefnum hlýt ég að spyrja: Af hverju erum við að fara í skipulagsbreytingar ef hlutirnir virka, ef þeir eru ekki bilaðir eins og ég sagði í upphafi? Er ætlunin, virðulegi forseti, að breyta eitthvað inntakinu? Ætlum við að leggja aðrar áherslur í þróunarsamvinnu með því að færa hana nær hinu pólitíska valdi? Ætlum við að leggja aukna áherslu á, eins og ýmsir hafa reifað, að íslensk fyrirtæki og atvinnulíf taki þátt í þróunarsamvinnu, til að mynda í gegnum jarðhitaverkefni? Það er hið ágætasta mál en kemur ekki í staðinn fyrir það sem við gerum í tvíhliða þróunarsamvinnu gegnum Þróunarsamvinnustofnun. Það eru spurningar sem við munum líka þurfa að fá svör við, helst hér en líka í nefndinni, hvort menn sjái fyrir sér efnislegar breytingar á inntaki þess verkefnis sem við erum að fást við. Það hlýtur alltaf að vera markmið okkar að verkefnið sé í lagi og strúktúrinn á að þjóna verkefninu en ekki öfugt. Ég velti þessu fyrir mér af því mér finnst markmiðið með sjálfu frumvarpinu gríðarlega óljóst. Við höfum meginmarkmið í lögunum um að styðja viðleitni stjórnvalda í þróunarlöndunum til að útrýma fátækt og hungri, stuðla að sjálfbærri þróun og allt þetta sem er hið ágætasta mál, en ég átta mig ekki á því hvernig skipulagsbreytingarnar eiga að þjóna því markmiði og óska eftir skýrum svörum um það.

Mig langar að koma aðeins inn á aðkomu Alþingis af því að fjallað er um hana í skýrslunni sem lögð er hér til grundvallar að einhverju leyti, skýrslu Þóris Guðmundssonar. Um þetta áttum við hv. þm. Össur Skarphéðinsson orðastað áðan. Ef ég man rétt er í skýrslunni rætt um að sérstök þingmannanefnd verði kjörin til þess að hafa eftirlit með og fylgjast með þróunarsamvinnu. Ég hef raunar alltaf litið svo á að þróunarsamvinna sé slík meginstoð í utanríkisstefnu Íslendinga að eitt af meginhlutverkum utanríkismálanefndar ætti að vera að fást við þróunarsamvinnu og hún ætti að gera meira af því en hún gerir í dag. Það mætti hins vegar skoða aðra möguleika á því ef menn telja að þróunarsamvinna verði út undan af því að sjaldnast er hún til umræðu sem hefðbundið þingmál og mikill tími hjá hv. utanríkismálanefnd fer í EES-mál og annað slíkt. Þá velti ég fyrir mér ef mönnum finnst tengingin við þingið ekki nægjanleg, sem ég get tekið undir, hvort við ættum þá ekki frekar að taka það alla leið því það er sú ábending sem mér finnst flestir taka undir að mætti skýra og skerpa. Eigum við þá ekki að velta því fyrir okkur hvernig fyrirkomulagi utanríkismála er nákvæmlega háttað í þinginu og jafnvel skipta því upp í tvennt með einhverjum hætti? Stundum hafa verið reifaðar hugmyndir um sérstaka Evrópunefnd, við gerðum það í síðustu viku þegar við ræddum ýmis mál tengd Evrópusambandinu og EES-samningnum. Kannski er það leið til þess að utanríkismálanefnd fái meiri tíma til þess að sinna þróunarsamvinnu, þjóðaröryggi og öðrum þáttum sem undir nefndina heyra. En það er ekki einu sinni gert í frumvarpinu, heldur er lögð til einhvers konar blendingstillaga þar sem lagt er til að komið verði á þróunarsamvinnunefnd þar sem sitji fimm þingmenn en líka aðilar sem verði skipaðir í samráði við aðila vinnumarkaðarins, við samstarfsnefnd háskólastigsins, íslensk borgarasamtök og að hún fundi að lágmarki tvisvar á ári. Ég spyr: Hver er þá breytingin í raun og veru? Við styrkjum ekki aðkomu Alþingis með fundum tvisvar á ári. Ég mundi halda við fyrstu sýn að meira vit væri í því, ef við skoðum raunverulega hvernig þessum málum er háttað í þinginu, að við færum í róttækar breytingar og skiptum verkefnum upp eins og ég nefndi áðan. Svo virðist sem það sé ekki vanþörf á.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum nefna að nokkur okkar í þinginu höfum lagt fram skýrslubeiðni þar sem við leggjum fram allt í allt 21 spurningu sem ég tel mjög mikilvægt að við fáum ítarleg svör við. Spurningarnar miða að því að fá frekari upplýsingar og rökstuðning fyrir þessum breytingum sem við sjáum ekki alveg klárt markmið með, m.a. óskum við eftir reynslu og tölulegum gögnum um það nákvæmlega hvernig sameiningunni er ætlað að auka skilvirkni og hagræðingu. Óskað er eftir upplýsingum um það hvort fyrir liggi hagkvæmnisúttekt, óskað er eftir þeim faglegu rökum sem liggi til grundvallar og hvaða hlutlausu sérfræðingar ef einhverjir hafi metið núverandi fyrirkomulag. Það er líka spurt út í það hvort ráðuneytið telji hreinlega önnur lögmál gilda, eins og kom fram hér áðan í umræðum við hæstv. ráðherra, um þróunarmál en aðra málaflokka í ljósi þess að tilhneigingin í stjórnsýslunni hefur verið sú að færa fremur framkvæmdina út í stofnanir en að eftirlit og stefnumótun sé á hendi ráðuneyta. Enn fremur að skoðað verði hvort hugsanlega mætti ná betri árangri og hagræðingu með því að fara öfuga leið, þ.e. færa frekari verkefni frá utanríkisráðuneytinu yfir til Þróunarsamvinnustofnunar sem var niðurstaða síðustu ríkisstjórnar, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, samanber reglugerð sem var sett árið 2005.

Það er raunar frétt um það í síðasta vefriti Þróunarsamvinnustofnunar þar sem er farið yfir þær sex tilraunir sem hafa verið gerðar á síðustu 20 árum til að leggja Þróunarsamvinnustofnun Íslands niður og færa starfseminni undir utanríkisráðuneytið. Þar kemur fram að Davíð Oddsson, þáverandi hæstv. utanríkisráðherra, setti reglugerð þar sem hann lagði til að málaflokkurinn yrði allur fluttur yfir í Þróunarsamvinnustofnun, en svo fór að þáverandi ráðuneytisstjóri neitaði að skrifa undir hana og staðgengill ráðuneytisstjóra neitaði líka, en þáverandi sendiherra fékkst til þess að staðfesta reglugerðina með undirskrift sinni, þar með var reglugerðin fullgild stjórnarathöfn. Henni var hins vegar aldrei fylgt eftir. Mér finnst full ástæða til þess að fara yfir alla þessa sögu hjá hv. utanríkismálanefnd.

Ég sé að tími minn er (Forseti hringir.) útrunninn og ég næ ekki að fara yfir hinar tíu spurningarnar sem eru í skýrslubeiðninni, en það er alveg ljóst að (Forseti hringir.) mörgum spurningum er ósvarað, virðulegi forseti.