144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[17:20]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna. Ég heyri á máli hennar að við erum svolítið á sama stað með þetta frumvarp, ég skil ekki frekar en hún af hverju líma þarf saman það sem ekki er brotið, eða af hverju þarf að gera við eitthvað sem ekki er bilað. Ég skildi það þannig að það væri skoðun hennar á frumvarpinu.

Hv. þingmaður kom í ræðu sinni sérstaklega inn á upplýsingagjöf og þær upplýsingar sem við fáum núna um þróunarsamvinnuna og það fannst mér athyglisvert. Ég ætla nú ekki að segja að upplýsingar séu kannski langbestar frá þessum ríkisstofnunum, en við fáum alltaf með reglulegu millibili ítarlegar upplýsingar frá Þróunarsamvinnustofnun. Ég held að þær komi að notum.

Finnst þingmanninum eins og það gæti verið ef stofnunin fer inn í ráðuneytið að þá breytist upplýsingagjöfin? Þegar ég hugsa það nánar væri það líka kannski óeðlilegt að utanríkisráðuneytið færi að gefa sérstaklega út upplýsingar um þennan málaflokk en ekki annan. Er hætta á að mati hv. þingmannsins að upplýsingagjöfin útvatnist ef hún fer inn í ráðuneytið?