144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[17:22]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er eitt af því sem ég velti hér upp í tengslum við frumvarpið í ljósi þess að opinberum stofnunum er sniðinn aðeins annar stakkur en hefðbundnum ráðuneytum, rammi þeirra er um margt dálítið öðruvísi. Þegar við skoðum stofnanir á málefnasviði annarra ráðuneyta eigum við ekki von á nákvæmlega eins framsetningu á efni frá t.d. Listasafni Íslands og mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Annars vegar erum við með stjórnsýslustofnanir ráðuneyta og hins vegar fagstofnanir. Mér finnst það einfaldlega sérkennilegt að leggja eigi með þessum hætti fagstofnun inn í ráðuneytið, fagstofnun sem er þar af leiðandi fjær ráðuneytinu, fjær stjórnsýslulegu valdi og hefur því meira svigrúm eins og hún hefur til að mynda nýtt með útgáfu veftímaritsins Heimsljós. Þar er hægt að lesa ýmsar fréttir af þróunarmálum í heiminum og ekkert bara af því sem Ísland nákvæmlega er að gera, heldur hvað er að gerast á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og hvað er nýjasta nýtt í alþjóðlegri umræðu um þróunarsamvinnu. Það er sett fram með allt öðrum hætti en gert er í ráðuneytum, a.m.k. er mín reynsla sú.

Nú skilst mér að ráðuneytin séu reyndar öll að verða óformlegri í upplýsingagjöf á facebook-síðum sínum og getur hverjum sýnst sitt um það, en mér finnst það heldur ekki alveg vera hlutverk stjórnsýslustofnana að vera með nákvæmlega upplýsingagjöf af því tagi. Það er einmitt frekar hlutverk fagstofnana þess sem njóta þess að einhverju leyti að vera fjær hinu pólitíska yfirvaldi og geta sett málin fram með aðeins öðrum hætti. Þannig að ég velti þessu upp. Þetta er kannski lítill punktur í þessu stóra máli, en ég nefni þetta af því veftímaritið hefur eiginlega verið helsta upplýsingaveitan um þróunarmál á íslensku og stofnunin er með þróunarmál til umfjöllunar reglulega á vefsíðu sinni.