144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[17:24]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er nefnilega akkúrat það sem ég held, í stórum málum sem þessum þá eru önnur lítil atriði sem skipta verulegu máli og við þurfum að hugsa þau öll til enda áður en við tökum ákvörðun. Mér fyndist það vera mjög afdrifarík ákvörðun ef ákveðið yrði hér að leggja Þróunarsamvinnustofnun niður.

Hv. þingmaður hefur rætt svolítið um aðkomu þingsins og ég segi eins og er að þessi tillaga í frumvarpinu um að fimm þingmenn eigi að fara í þróunarsamvinnunefnd sló mig svolítið. Það kemur ekkert fram um hvernig þeir eiga að vera valdir, það eiga bara að vera fimm þingmenn. Nú eru hér sex þingflokkar, er það ekki rétt hjá mér, virðulegur forseti? Hvernig á að velja þessa fimm þingmenn? Síðan segir í greinargerðinni að þetta eigi að gera af því að þingmenn þurfi að fylgjast betur með þróunarsamvinnumálum. Getum við þá ekki bara átt von á því að við þurfum að setja þingmenn í öll bankaráð líka? Þurfum við ekki að fylgjast betur með bönkunum? Þurfum við ekki að fylgjast betur með Seðlabankanum?

Er þessi tillaga ekki bara í takt við annað sem þessi ríkisstjórn leggur fram, sem sagt að fara 20, 30 ár eða svo aftur í tímann og koma sínu fólki fyrir hér og þar? Mér finnst þetta nú svolítið lykta af því og bíð bara eftir því að einhver leggi fram tillögu um slíkt í sambandi við bankana, nú eigum við Landsbankann og svo er Seðlabankinn, að þingmenn sitji þar til þess að þeir geti fylgst vel með. Ég tala nú ekki um hættuna á því að ef upplýsingarnar verða verri, vegna þess að ég held að við þingmenn getum ekki kvartað undan því að fá ekki góðar upplýsingar frá Þróunarsamvinnustofnun.