144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[17:29]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Af því vefritið Heimsljós barst í tal þá vil ég upplýsa að ég er einn af reglulegum lesendum þess og ég held að þar hafi verið gerð mjög merkileg tilraun af hálfu Þróunarsamvinnustofnunar sem hafi lukkast mjög vel. Ég tek eftir því að mjög oft rata leifturskemmtilegar frásagnir þess í aðra fjölmiðla. Ég hugsa að því megi slá föstu að engin fjárfesting í upplýsingamiðlun af hálfu nokkurrar ríkisstofnunar hafi skilað jafn miklu eins og akkúrat sú ákvörðun að halda því riti úti.

Hv. þingmaður velti því fyrir sér hvaða fordæmi væru fyrir því að menn færu þá leið sem hæstv. ráðherra leggur hér til. Ég segi alveg hreinskilnislega að ég man ekki eftir nokkurri ríkisstofnun sem hefur verið lögð inn í ráðuneyti. Og ef einhver í þessum sal að meðtöldum hæstv. utanríkisráðherra man eftir slíku væri gaman að heyra dæmin af því. Það er vel hugsanlegt að það hafi gerst einhvern tímann, ég segi ekki á öldum fyrri en alla vega fyrir alllöngu síðan, en ég man ekki eftir því. Þetta gengur algjörlega þvert á öll lögmál í nútímanum um það hvernig á að skilja á milli stefnumótunar og framkvæmdar og eftirlits. Þetta gengur þvert á það sem ríkisendurskoðun hefur gert ótal athugasemdir við í gegnum tíðina og nánast látið sína hnútasvipu ríða um herðablöð þingmanna hér aftur og aftur og ráðherra sérstaklega.

Hv. þingmaður tók þátt í því fyrir nokkrum árum, held ég, alla vega umræðunni um það hvernig ætti að þætta þingið og þróunarmál betur saman. Það var gerð tilraun sem var algjörlega mislukkuð, þessi nefnd, og skrifast öll sú vitleysa á kostnað þingsins. Það er bara þannig. Utanríkisráðuneytið var algjörlega frítt við það. En hvernig vildi hv. þingmaður sjá þetta samband?