144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[17:31]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Um fordæmin fyrir sameiningu fagstofnana við ráðuneytið verð ég að viðurkenna að ég man ekki heldur eftir slíkum fordæmum, þó er minni mitt ekki óbrigðult. Ég hef auðvitað velt fyrir mér: Hvað ef þær hugmyndir hefðu komið upp að fækka stofnunum og sameina t.d. Minjastofnun ráðuneytinu? Nú voru húsafriðunarnefnd og Fornleifavernd ríkisins sameinaðar í eina stofnun, Minjastofnun, sem hefði svo verið hægt að sameina undir mennta- og menningarmálaráðuneytið. Mér hefði satt að segja þótt það sérkennileg þróun að færa fagstofnun, sem er samt ekki í beinni þjónustu heldur meira í stjórnsýsluhlutverki og framkvæmdum, getum við sagt, með þeim hætti undir ráðuneytið. Ég man ekki eftir slíkum fordæmum og á bágt með að sjá rök fyrir því þó ég fari yfir svið fagráðuneyta.

Hvað varðar þingið þá tók ég ekki þátt í þessum ágætu umræðum, líklega hef ég verið í fæðingarorlofi á þeim tíma. En það er rétt sem hv. þingmaður segir. Þessi tilraun til að samþætta þingið betur inn í stefnumótun um þróunarmál hefur ekki gefist eins vel og menn vonuðu og það þyrfti að skoða það betur. Ég hef sjálf talað fyrir því að það sé gert í gegnum þær nefndir sem við höfum í þinginu. Ég hef minnt á það að við felum utanríkismálanefnd mikil verkefni. Þar hafa lengi verið uppi hugmyndir um að stofna ætti sérstaka Evrópunefnd og ef slík nefnd væri stofnuð mundi utanríkismálanefnd að sjálfsögðu hafa meira svigrúm til að sinna hlutverki sínu hvað varðar þróunarsamvinnu og önnur utanríkismál en þau sem beinlínis lúta að EES-samningnum og samskiptum við Evrópu. Það kann að vera óvinsælt að fjölga nefndum þingsins, en þó er mjög kallað eftir því að þingið taki með virkari hætti þátt í eftirliti og aðkomu að EES-málum og Evrópumálum. Það kynni líka að tryggja hugsanlega aukna aðkomu að þróunarsamvinnu og öðrum utanríkismálum.