144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[17:37]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ég fagna því alltaf þegar við ræðum utanríkismál hér í þingsal og alveg sérstaklega þegar við fáum tækifæri til að ræða þróunarsamvinnu. Það verður að segjast eins og er að umræðan hér í dag hefur verið mjög góð og skemmtileg, enda um mikilvægt málefni að ræða. En tilefnið þykir mér því miður ansi leiðinlegt því að við erum að ræða frumvarp sem hefur verið lagt fram og eftir því sem ég skoða það betur líst mér verr og verr á það.

Þessi þingmaður hóf störf á hinu háa Alþingi fyrir tæpum tveimur árum og kom þá hingað blautur á bak við eyrun og bláeygur. Við slíkar aðstæður gerir maður auðvitað sitt besta til að kynna sér málin og sjá hvernig landið liggur. Eitt af málefnunum sem kom upp á mitt borð, þegar ég var útnefndur fulltrúi í utanríkismálanefnd, var einmitt þróunarsamvinna. Það verður að viðurkennast að á mínum fyrri vettvangi í sveitarstjórnarmálum hafði þróunarsamvinna sjaldan ef nokkurn tíma komið til tals, enda aðkoma sveitarstjórna afskaplega takmörkuð. En á þessum tveimur árum hef ég lagt heilmikla vinnu í að kynna mér þróunarsamvinnu og það hvernig Ísland hefur háttað sinni þróunarsamvinnu. Af mörgu sem ég hef kynnt mér í íslensku stjórnkerfi þá eru í þróunarsamvinnu einhver blómlegustu og jákvæðustu merki sem ég hef dottið um, eins og hefur komið svo ágætlega fram í ræðum hér á undan, um stórkostlega gott og árangursríkt starf Þróunarsamvinnustofnunar. Síðustu árin, eftir að virkilega var lögð áhersla á og bætt í í árangursstýringu og árangurseftirliti stofnunarinnar, hefur verið ánægjulegt að sjá hversu vel þeim litlu fjármunum sem litla Ísland hefur þó lagt til þróunarsamvinnu hefur verið varið, hve þeir hafa haft mikil áhrif.

Utanríkismálanefnd hefur lagt talsverða vinnu í að kynna sér þróunarsamvinnumál, nú síðasta árið undir traustri og dyggri stjórn hv. þm. Birgis Ármannssonar, formanns utanríkismálanefndar, og það hefur verið mjög ánægjulegur leiðangur. Þess vegna verður að segjast að þetta frumvarp kemur dálítið eins og — ja, nú veit ég ekki hvaða orð eru leyfileg hér — eitthvað óvirðulegt úr sauðarleggnum. Hér virðist vera gerð tilraun til að breyta því sem virðist vera í mjög góðu standi. Ég gat ekki heyrt betur á framsöguræðu hæstv. utanríkisráðherra en hann væri því fyllilega sammála að starf og skipulag Þróunarsamvinnustofnunar væri til fyrirmyndar.

Þá verður maður að velta því fyrir sér hvort þetta sé hluti af einhverri þróun, hvort við horfum hér á þróun eða breytingu á því hvernig við högum stjórnsýslu okkar á Íslandi. Það hefur komið ágætlega fram í umræðunni að svo virðist ekki vera því að tilhneigingin hefur einmitt verið, og tilhneigingin almennt í fræðunum um góða og skilvirka stjórnsýslu, að hafa mjög skýra aðgreiningu á milli framkvæmdar og stefnumótunar og eftirlits. Stundum má spyrja sig á litla Íslandi, í jafnlítilli stjórnsýslu og við búum við í þessu fámenni, hvernig hægt sé að hafa sjálfstæðar stofnanir um alla mögulega hluti. Niðurstaðan er eiginlega alltaf sú sama að með því að hafa sjálfstæðar, faglegar stofnanir utan um framkvæmdir — og þetta á bæði við hjá ríki og einnig hjá sveitarfélögum, jafnvel þó að stofnanirnar séu vanmáttugar og litlar og fámennar — aukum við alla vega líkur á að fagmennska og góð vinnubrögð séu uppi á borðinu og eftirlitið með þessum framkvæmdum sé sjálfstætt og einnig eftirlit með ráðstöfun fjármuna.

Ég held að allir — ég leyfi mér að segja „allir“ þó að mér leiðist að staðhæfa um skoðanir allra, það er alltaf einhver sem er á annarri skoðun, en það er alla vega skoðun flestra sem hafa skoðað þessi mál að hér hafi gengið mjög vel. Í frumvarpinu er í raun lagt til að fara í þveröfuga átt við það sem ég gæti best trúað að mundi styrkja þróunarsamvinnuverkefni okkar. Ég hallast meira og meira að því, eftir því sem ég skoða þessi mál betur, að frekar ætti að hreyfa við málum í hina áttina, þ.e. að styrkja Þróunarsamvinnustofnun sem sjálfstæða einingu og jafnvel að færa þangað verkefni sem nú eru innan ráðuneytisins.

Við höfum fært verkefni úr ráðuneytum og yfir í sérstakar stofnanir. Mér dettur Fiskistofa í hug. Í vegagerð, í hafnarmálum o.s.frv. hefur gengið mjög vel að hafa sjálfstæðar stofnanir sem síðan lúta faglegu og fjárhagslegu eftirliti úr ráðuneytunum. Ég verð því, eins og sumir hv. þingmenn hér fyrr í umræðunni, að lýsa yfir furðu minni á því að tillagan skuli ganga út á það að fara í hina áttina.

Þróunarsamvinna er ekki eitthvert verkefni sem við erum að klára núna eða bíta úr nálinni með. Þróunarsamvinna er hluti af hlutverki Íslands í heimi sem ég hef nú sagt í fyrri ræðum um utanríkismál að sé alltaf að minnka og alltaf að samþættast. Við vitum það og sjáum á hverjum degi eiginlega þegar við fáum nýjar fréttir af áhrifum loftslagsbreytinga, af áhrifum misskiptingar valds og auðs í heimsbyggðinni að breytingarnar gerast hraðar en menn áttu von á. Það mun margt breytast og er margt að breytast í heimsbyggðinni. Og þó að við búum hér á lítilli, friðsælli eyju í Norðurhöfum er ljóst að þær breytingar munu að minnsta kosti hafa óbein og sennilega oft bein áhrif á okkur Íslendinga. Við þær aðstæður mun alþjóðleg samvinna þurfa að þjóna stærra hlutverki og til að taka þátt í þeirri þróun skiptir mjög miklu máli, jafnvel fyrir svona lítið einangrað land eins og Ísland, að halda vel utan um þá þekkingu sem við höfum þó tækifæri til að byggja upp og byggja upp stofnanir og hefðir sem eru sem bestar. Þarna hefur einmitt verið svo ánægjulegt að kynnast starfi Þróunarsamvinnustofnunar því að þar hefur grettistaki verið lyft í þessa veru. Ég get ekki annað, í beinu framhaldi af andsvörum hérna áðan, en lokið sérstöku lofsorði á vefritið sem Þróunarsamvinnustofnun hefur haldið úti en það hefur virkilega opnað augu mín sem þingmanns og ég heyri það úti í samfélaginu að það hefur virkilega aukið áhuga og skilning á mikilvægi þróunarsamvinnu.

Þetta er mikilvægur þáttur í íslenskri utanríkismálastefnu sem á endanum er ekki bara spurning um einhvers konar góðmennsku við aumingja útlönd heldur hluti af því að við stöndum okkar plikt sem hluti af heiminum, og við tökum sem þjóð þátt í því, verandi rík, verandi friðsæl og hafandi talsvert mikla getu miðað við meðaltalið, að bæta heiminn. Það er ómetanlegt að við skulum hafa stofnanir sem hafa góða getu. Eins og komið hefur fram í þeim úttektum sem þó hafa verið gerðar, en ég tek undir það að við bíðum eftir jafningjaúttekt sem von er á 2016, eigum við hér stofnun sem hefur getu til að takast á við aukin verkefni, ekki bara íslensk verkefni eða verkefni sem hefjast á Íslandi heldur, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson benti á í andsvari hér áðan, stofnun sem er treyst til að taka við viðbótarfjármagni frá alþjóðasamfélaginu; íslenska stofnunin stendur ekki bara undir sinni vigt heldur er hún hreinlega til fyrirmyndar á heimsvísu, hún þykir betri til að vinna úr þessum fjármunum en aðrar stofnanir.

Ég hef því dálitlar áhyggjur, af því að ég sé ekki nógu haldmikil rök, að því er mér finnst, í greinargerð með frumvarpinu, af því að fara í svona alvarlega uppstokkun. Ég verð sömuleiðis að gera nokkuð alvarlega athugasemd við tímasetninguna. Ekki einungis erum við að ræða þetta frumvarp hér á Alþingi í dag — á meðan virðulegur forseti hefur samþykkt að beina því til Ríkisendurskoðunar að gera úttekt, á meðan skýrslubeiðni margra þingmanna, níu þingmanna ef ég man rétt, um nánari útskýringar á bak við frumvarpið er ósvarað — heldur er verið að leggja til veigamiklar breytingar á þróunarsamvinnustarfi okkar Íslendinga og á því starfi sem fram fer í þessari sjálfstæðu stofnun, Þróunarsamvinnustofnun, þegar við vitum að von er á alþjóðlegri úttekt 2016. Ég geri eiginlega sérstakan reikning fyrir því að mér þykir þetta furðuleg tímasetning.

Í svona umræðu er hætta á því að hlutir séu endurteknir. Ég er almennt talsmaður skilvirkni í umræðum hér á Alþingi en það verður að segjast eins og er að góð vísa verður aldrei of oft kveðin. Rétt í lok máls míns vil ég aðeins setja spurningarmerki við þann hluta frumvarpsins sem snýr að breytingum á þróunarsamvinnunefnd og pólitískri aðkomu að þróunarsamvinnumálum. Mér sýnist að hér sé verið að gera talsvert mikla breytingu á pólitískri aðkomu, auðvitað ekki bara með því að færa starfið inn í ráðuneytið, beint undir pólitískt vald ráðherra, heldur líka með því að búa til þróunarsamvinnunefnd þar sem fimm þingmenn eiga að funda tvisvar á ári hið minnsta, eftir því sem tekið er fram. Miðað við mína reynslu af þingmennsku verð ég að segja að starf sem á að vera tvisvar á ári á dagskrá okkar þingmanna verður því miður seint að forgangsatriði í starfi þingmannsins. Ég hef áhyggjur af því að ekkert verði úr þessu eftirliti þingsins, að þetta sé ekki góð leið þó svo að ég hafi kannski ekki endilega bestu leiðina til að skila því. En ég hef lokið máli mínu að sinni.