144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[17:59]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið og spurningarnar. Ég tel að kerfi árangursstjórnunar hjá Þróunarsamvinnustofnun hafi gefist afskaplega vel og það hefur tekist mjög vel að fylgja eftir verkefnum og hámarka árangur. Ég verð því að vera jákvæður og segja að ég tel að það að taka upp svipað kerfi víðar hljóti að vera jákvætt. Í sjálfu sér þurfi ekki endilega að sameina stofnunina ráðuneytinu til þess.

Varðandi mögulegan árekstur verkefna utanríkisráðuneytisins, sem fer með hagsmuni og hagsmunagæslu fyrir hönd Íslands, þá hef ég kannski ekki stórkostlegar áhyggjur af þeim hluta því að utanríkisráðuneytið starfar auðvitað á fleiri sviðum, meðal annars í borgaraþjónustu og slíkt, þannig að ég held að það sé kannski ekki endilega ómögulegt að koma því fyrir. (Forseti hringir.) Ég hef meiri áhyggjur af því að hér sé verið að setja saman framkvæmd og eftirlit, þ.e. að sami aðili og fer með framkvæmdina á að hafa eftirlit með henni. (Forseti hringir.) Það held ég að kunni ekki góðri lukku að stýra.