144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[18:03]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og spurningarnar. Ég náði ekki almennilega í ræðu minni undir lokin að ræða pólitíska aðkomu. Ég tel mjög mikilvægt að pólitísk aðkoma sé að þróunarsamvinnu og þá fyrst og fremst, eins og hv. þingmaður nefndi, vegna þess að hér er fjárveitingavaldið og það er hér á Alþingi sem við myndum þá stefnu um hvernig við ætlum að standa okkur í þróunarsamvinnu. Nú er þingmaðurinn sem hér stendur ekki alveg nógu töluglöggur til að muna nákvæmlega hlutfallið af þjóðarframleiðslu sem gert er ráð fyrir að við leggjum fram, en hún er einhvers staðar um þriðjungur eða svo af markmiðinu 0,7%, sem til dæmis vinaþjóðir okkar Bretland og Írland lögðu mikið upp úr í miðri kreppunni að standa við og bættu í. Ég tel að pólitísk aðkoma og þverpólitísk sátt um þessi mál skipti miklu máli. Eitt af því sem veldur mér smááhyggjum í sambandi við frumvarpið er að það er lagt fram einhliða af stjórnarliðum en ekki í pólitískri sátt.

Hin spurning hv. þingmanns, ég get ekki sagt að Björt framtíð hafi enn markað sér skýra og endanlega stefnu í því hvernig eigi að halda á þessum stofnunum. Hins vegar er það í anda okkar stefnu að tryggja faglega og örugga stjórnsýslu og ákveðnir eldveggir séu á milli í þeirri stjórnsýslu, og út frá þeim meginprinsippum held ég að ég geti fullyrt, alla vega fyrir mína hönd og fyrir hönd Bjartrar framtíðar, að hugmyndin að fara í hina áttina og fylgja hugmyndum (Forseti hringir.) Davíðs Oddssonar, þáverandi utanríkisráðherra, að færa verkefnið til Þróunarsamvinnustofnunar, gæti orðið farsælla.