144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[18:05]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Óttarr Proppé minnir mig oft, með fullri virðingu, á ítalskan bóhem og „intellectual“. Því nefni ég þetta að sú þjóð sem síðast endurskoðaði framkvæmd á sinni þróunarsamvinnu voru Ítalir. Þeir voru að ljúka því núna bak jólum að samþykkja lög í þinginu eftir mikil harmkvæli, það var mjög umdeilt, en þeir fóru þá leið í reynd sem hv. þingmaður er svona að gæla við, að minnsta kosti í leyndum huga síns og leyfðu okkur þau forréttindi að fá að skyggnast þar inn. Þeir voru að stokka upp sína þróunarsamvinnu. Niðurstaðan eftir mikla yfirlegu og ráð frá bestu „intellectunum“ og bóhemum í Rómaborg og sennilega víðar á Ítalíu var að færa allt í eina stofnun, taka líka fjölhliða verkefnin og setja allt í eina stofnun og það er vel í anda Þróunarsamvinnustofnunar. Eitt af því sem henni er hrósað fyrir í skýrslunni er einmitt valddreifing vegna þess að hún dreifir valdinu frá sér út til fólksins (Forseti hringir.)