144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[18:11]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og spurninguna. Það er nú svo að þróunarsamvinna Íslands, bæði tvíhliða og fjölhliða, er í takt við utanríkisstefnu Íslands og komið hefur fram í umræðum og andsvörum við hæstv. utanríkisráðherra fyrr í dag að engin dæmi eru um annað en að þar hafi Þróunarsamvinnustofnun og ráðuneyti gengið í takt og áherslur í utanríkismálum Íslands, þar virðast ekki vera nokkur vandræði við að koma þeirri stefnu á milli hæða, að mér skilst, því að Þróunarsamvinnustofnun er nú ekki lengra frá utanríkisráðuneytinu en vera hreinlega á hæðinni fyrir neðan, eða ofan ef ég man rétt.

Ég hef vissulega ákveðnar áhyggjur af því að með slíkri sameiningu verði auðveldara að færa til áherslur frá tvíhliða starfi og yfir í fjölhliða starf. Við sáum örlítil merki fannst mér um það í fjárlögum í fyrra þar sem hækkanir í þeim hluta sem kom sérstaklega að skólaverkefnunum bitnuðu á tvíhliða þróunarsamvinnunni, sem ég held að sé miður. Hins vegar held ég að mikilvægt sé auðvitað að við með þessa tiltölulega litlu peninga á heimsvísu, þeir séu sem best veittir í þau verkefni þar sem við höfum sérstaka þekkingu (Forseti hringir.) og það hefur sýnt sig að það hefur ekki verið vandamál hingað til, það hefur frekar verið þannig að (Forseti hringir.)