144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[18:37]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að besta viðbragðið núna væri að styrkja Þróunarsamvinnustofnun. Ég mundi halda að það væri skynsamlegast. Eins og ég hef oft sagt áður og ítreka enn og aftur er alveg hægt að gera þetta innan ráðuneytisins en það kallar á svo mikla uppbyggingu og sérhæfingu þar ef vel á að vera að ég efast um að það sé mögulegt út frá þeim hagræðingarsjónarmiðum sem ég sé að eru að hluta til sett fram hér í rökstuðningnum fyrir þessu.

Þegar við veltum þessu mikið fyrir okkur á árinu 2008 var það hin efnislega niðurstaða að betra væri að styrkja faglega innviði Þróunarsamvinnustofnunar til að gera henni betur kleift að gera þetta, vegna þess að verkefnin eru svo eðlisólík. Hefðbundinn diplómat í utanríkisþjónustu ver hagsmuni Íslands gagnvart öðrum ríkjum. Hann talar við stjórnvöld og er í stöðutöku gagnvart stjórnvöldum, hann flytur erindi íslenskra stjórnvalda og miðlar þeim til baka. Hann er líka í hagsmunavörslu fyrir íslenska efnahagslífið, að mörgu leyti fyrir útflutning o.s.frv. En í þessu tilviki er hinn útsendi starfsmaður í samskiptum við venjulegt fólk, kannski við bæjaryfirvöld í einhverjum agnarlitlum bæ þar sem er til að mynda þróunarverkefni á sviði menntunar kvenna eða verið að setja upp vatnsveitu eða verið að gera eitthvað annað sem eru verkefni sem verið er að vinna.

Það var mikil hreyfing til þess fyrir um 10 árum síðan á sviði alþjóðlegrar þróunarsamvinnu að hætta slíkum verkefnum, að veita fé í fjárlög ríkja sem væri verið að styðja við. Öll Vestur-Evrópuríki eru orðin meira hugsi yfir þeirri þróun í dag og vilja hafa eitthvað blandað, bæði afmörkuð verkefni og slíkan stuðning. Ég sé ekki alveg hvernig utanríkisþjónustan ætlar að hafa mannaflann til að helga sig þessu verkefni um alla framtíð. (Forseti hringir.) Það hefur ekki verið raunin í öðrum verkefnum og margir sem fara úr einu verkefni í annað, úr einni sérhæfingu í aðra, innan utanríkisþjónustuna almennt séð.