144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[18:40]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og spyrja hann aðeins. Mér finnst þetta snúast um góða stjórnsýslu og maður veit í sjálfu sér ekki hvort ráðuneytið hafi þróað og byggt upp jafn gott kerfi til árangurs, eftirlits og mælinga og Þróunarsamvinnustofnun hefur gert. Tilhneigingin, eins og ég skil það, hefur kannski verið til þess að flytja verkefni frá ráðuneytum og til stofnana þannig að ráðuneytið sinni stefnumörkun og eftirliti en stofnanirnar sjá um framkvæmdina. Hérna er verið að fara í þveröfuga átt.

Þá finnst mér tilefni til að spyrja hversu vel það falli að góðum stjórnsýsluháttum að ráðuneytið móti stefnuna, annist framkvæmdina, fylgist með framkvæmdinni og meti síðan árangurinn. Ég hef áhuga á að heyra hvað hv. þingmaður segir um það. Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir kom líka inn á eftirlitið í andsvari við hæstv. utanríkisráðherra og mér fannst hann skauta svolítið fram hjá því. Þetta væri þá spurningin: Hvernig snýr það við hv. þingmanni, þetta með eftirlitið og hvort ráðuneytið eigi að meta sjálft sig?