144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[18:42]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég rakti í ræðu minni er í fyrsta lagi ekki skýra stefnu að fá frá ríkisstjórninni um hvort hún vilji almennt flytja framkvæmdaverkefni inn í ráðuneyti eða út úr þeim og menntamálaráðherrann gerir þveröfugt við utanríkisráðherrann. Þar fyrir utan eru þessi framkvæmdaatriði mjög sérhæfð og miklu ólíkari ráðuneytisverkefnum en þau menntamálaverkefni sem hæstv. menntamálaráðherra er að taka út úr menntamálaráðuneytinu í dag og setja í Menntamálastofnun.

Varðandi eftirlitið finnst mér 8. gr. algerlega ótæk, að segja á almennan hátt að framkvæmd stefnu stjórnvalda um alþjóðlega þróunarsamvinnu skuli háð eftirliti og úttektum óháðra aðila. Svo segir í skýringum við greinina að greinin þarfnist ekki skýringa. Mér finnst það þarfnast skýringa hvernig eigi að fara með eftirlit með ráðstöfun næstum því 5 milljarða af almannafé. Þróunarsamvinnunefnd DAC, sem kom og fundaði ítarlega með utanríkismálanefnd um þessi mál á árinu 2012, lagði líka ríkt á við okkur um að það skorti algerlega í íslensku regluverki aðkomu Alþingis og þingmanna að því að hafa eftirlit með ráðstöfun þessara fjármuna. Þeir vildu helst að fjárlaganefnd færi í þetta eða þá að utanríkismálanefnd hefði þetta mál sérstaklega með hendi. Niðurstaða okkar varð sú að það yrði raunin. Utanríkismálanefnd ætti að hafa eftirlit með framkvæmdinni með einhvers konar hætti en það yrðu kjörnir sérstakir þingkjörnir fulltrúar í þróunarsamvinnunefnd til að sinna stefnumörkun, þannig að það voru ekki sömu aðilarnir sem sinntu stefnumörkuninni og eftirlitinu. En það er ófært að ráðherra leggi fyrir Alþingi frumvarp um að ekkert eftirlit eigi að vera eða eftirlit sem enginn veit hvernig á að vera með ráðstöfun næstum því 5 milljarða af almannafé þegar fyrir liggja athugasemdir alþjóðlegra eftirlitsaðila um að það sé stærsti veikleikinn í stofnanauppbyggingunni nú þegar.