144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[19:10]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Varðandi 5. gr. er ég reyndar hlynntari því að þingsályktunin gildi til lengri tíma en skemmri, af því að ég held að þetta sé þannig málaflokkur að við þurfum að sjá stefnu þar til langs tíma. Samanber kannski fjármál ríkisins, við erum gjarnan að horfa svolítið skammt. Það breytir því ekki að þetta er þingsályktun og maður spyr sig: Hefur hún eitthvert vægi á milli þinga eða milli kjörtímabila? Þetta er kannski ekki fallega sagt, en ég styð hins vegar að þetta sé gert til lengri tíma og ég held að þingið geti þá ár hvert, í tengslum við fjárlögin, haft eitthvað um það að segja, þ.e. innan ramma utanríkisráðuneytisins þegar við samþykkjum fjárlög.

Ég er hins vegar ekkert endilega viss um að við náum að samþykkja ný lög um opinber fjármál á þessu vorþingi, mér sýnist staðan ekkert endilega benda í þá átt og finnst vera svolítið sem á eftir að ná í land til þess (Forseti hringir.) að við í fjárlaganefnd getum sameinast um að afgreiða það.