144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[19:12]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir vitnaði áðan í Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur stjórnsýslufræðing. Mér finnst mjög áhugavert það sem hún segir um afturför í stjórnarháttum sem ég er mjög sammála og finnst eiginlega vera dálítið hrikalegt þegar er verið að tala um að auka miðstýringu, sem veldur náttúrlega ógagnsæi. Ég velti fyrir mér í ljósi atburða síðustu daga hvert við stefnum í þessum málum þegar farið er að auka miðstýringu og ógagnsæi og færa okkur frá lýðræði, þingræði er hunsað og ekki tekið mark á mótmælum eða undirskriftalistum. Hvert er raunverulega markmiðið og hvert stefnum við? Ég spyr hv. þingmann hvað hún sjái út úr þessu og hvort hún geti tekið undir þetta með mér.