144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[19:20]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði náttúrlega ekki að þetta byggði eingöngu á skýrslunni, en hv. þingmaður hefur ekki svarað spurningunni hvort hún sé í rauninni að segja að sá ágæti maður sem skrifaði skýrsluna hafi haft einhver annarleg sjónarmið uppi þegar farið var í skýrslugerðina, að fyrir fram mótaðar skoðanir hans væntanlega hafi ráðið því hver útkoman ætti að vera. Það kemur alveg skýrt fram í skrifum hans, ef þingmaðurinn hefur lesið skýrslu Þóris Guðmundssonar, sem ég hef ákveðnar efasemdir um, hvernig verkið var unnið. Þingmaðurinn verður að svara því hvað hún á við, hvort hún hafi virkilega þær skoðanir að sérfræðingurinn, Þórir Guðmundsson í þessu tilviki, hafi komið í þessa vinnu með það að markmiði að færa ætti starfsemina inn í ráðuneytið. Mér finnst þingmaðurinn vega að heiðri þessa ágæta manns sem hefur starfað við málaflokkinn árum saman, áratugum jafnvel. Mér finnst að þingmaðurinn þurfi að svara því mjög skýrt.