144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[19:21]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil benda ráðherranum á að ég er búin að lesa skýrsluna, ég sagði það í dag, ég er búin að lesa þessa skýrslu, ég er búin að lesa skýrslu Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur og ég er búin að lesa DAC-skýrsluna. Ég er því ágætlega upplýst um málið.(Utanrrh: … skýrsla Sigurbjargar var ekki um þetta.) Hún var um þróunarsamvinnumálin. Varðandi skýrsluna sem ég hef talað um í dag þá ætla ég alls ekki að vega að heiðri mannsins, þetta snýst ekki um það. Hann segir meira að segja sjálfur einhvers staðar, ef ég man rétt (ÖS: Í lok inngangs.) að hann sé sjálfur á því að telja megi að honum sé málaflokkurinn of skyldur til þess að hann geti verið algjörlega óháður.

Ég hefði viljað að frumvarpið byggði á meiru en bara þessari einu úttekt á málinu. Ráðherrann rakti það ekki í framsögu sinni að það væri byggt á einhverjum öðrum vönduðum úttektum, ef við gefum okkur að þessi úttekt sé vönduð. Við erum með fleiri aðrar vandaðar úttektir. (Forseti hringir.) Hann nefndi ekki í ræðu sinni að annað undirbyggði (Gripið fram í.) hans mál, (Forseti hringir.) og ég dreg það ekki í efa. Mér finnst (Forseti hringir.) yfirbragð skýrslunnar vera þannig að (Gripið fram í.) niðurstaðan leiði til þessa, af því að mér finnst vanta (Forseti hringir.) rannsóknarspurninguna í skýrsluna. Það gagnrýni ég.