144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[20:17]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður sagði: Hvers vegna ekki að fá fleiri álit en bara þetta? Mér finnst það dálítill kjarni máls í þessu. Það eru of náin tengsl á milli Rauða krossins og utanríkisráðuneytisins til þess að í reynd sé hægt að hafa bara álit starfsmanns Rauða krossins. Þá ber að geta þess að starfsmaðurinn er nægilega ærlegur til að skrifa þetta sérstaklega inn í innganginn. Hann gerir grein fyrir þessu og segir bókstaflega: Þetta hef ég í farteskinu og þeir sem lesa skýrsluna skulu hafa það í huga. Flott hjá honum. Ég hafði það í huga.

Skýrslan er ágæt fyrir sinn hatt. Þó er ég ekki sammála því, sem hv. þingmaður sagði, hann gerði mjög góða grein fyrir niðurstöðu sinni. Skýrslan er ekkert mjög frábrugðin áfangaskýrslu sem skýrsluhöfundurinn sendi frá sér. Þar er gerð grein fyrir þremur möguleikum. Þessi lokaniðurstaða kemur kannski ekki eins og skrattinn úr sauðarleggnum, það mátti alveg sjá hana í gegnum hitt, en það var ekki niðurstaðan í upphafi. Þannig að ég tek það sem eitt af kjarnaatriðunum úr máli hv. þingmanns þegar hann segir að það hefði átt að fá fleiri sjónarhorn. Það hefði til dæmis átt að fá einhvern vinkil úr akademíunni þar sem menn hafa rannsakað þessi fræði.

Það sem mér finnst verst í þessu er það að hæstv. ráðherra, í sinni ræðu og í greinargerðinni, fór bókstaflega með okkur eins og hálfgerða kjána og gerði ekki ráð fyrir því að nokkur maður hefði lesið DAC-álitið. En menn hafa lesið það. Það kemur þar í ljós að það sem hæstv. ráðherra sagði, um að það væri meðal annars að ábendingu þeirra sem væri verið að ráðast í þessa breytingu, stenst ekki próf veruleikans. Ég ætla ekki að taka dýpra í árinni með það.

Hvað finnst hv. þingmanni um slíka málafylgju?