144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[20:31]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta með að virkja samtakamáttinn hefur náttúrlega mistekist, ég held að óhætt sé að segja það, mér finnst að það hafi heldur ekki verið reynt neitt sérstaklega í tíð þessarar ríkisstjórnar, heldur svona markvisst að virkja samtakamáttinn ekki. Kannski var það prentvilla, ríkisstjórnin ætlar ekki að virkja samtakamáttinn heldur bara virkja. Punktur. Það má velta fyrir sér merkingu stjórnarsáttmálans þegar kemur að þessu.

Lítum á þennan málaflokk. Eins og ég tæpti á í ræðu minni er um málaflokk að ræða þar sem ég held að sé svona nokkuð breið sátt um (Gripið fram í.) kannski fyrir utan hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur sem sagði skoðanir sínar á þessu sem endurspegluðu held ég ekki vilja meiri hluta þingheims. En ég held að mjög breið sátt sé um það að reyna að gera vel í þróunarsamvinnumálum. Þá er samþykkt þessi metnaðarfulla þingsályktun um áætlun í þróunarsamvinnumálum þar sem Íslendingar á krepputímum, mjög erfiðum tímum, segja í þessum sal að þeir ætli að reyna að standa vel að þróunarsamvinnu og reyna að ná æskilegum og skammlausum markmiðum í þeim efnum.

Ríkisstjórnin dregur þetta til baka og ein grundvallaryfirlýsing í þeim verknaði öllum og í sömu andrá koma hin umræddu orð hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur um að það eigi alls ekki að vera forgangsatriði að hjálpa eitthvað þjóðum úti í heimi. Þá mundi ég segja, fyrst þetta er það sem ríkisstjórnin hefur hingað til gert í þróunarsamvinnu, að það sé extra mikil ástæða fyrir ríkisstjórnina og fyrir hæstv. utanríkisráðherra til að standa vel að svona frumvarpi, ef hann vill koma með það inn, og byggja það á þverpólitískri samvinnu, byggja það á góðri greiningu. Ég mundi segja (Forseti hringir.) og miðað við hvernig frumvarpið er úr garði gert, að eiginlega ætti hann, ja, það væri nú bara rökréttast (Forseti hringir.) að sleppa þessu frumvarpi miðað við það sem hingað til hefur verið gert í þróunarsamvinnumálum.