144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[20:52]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Það er auðvitað alveg rétt. Ég hafði satt að segja ekki hugsað út í nákvæmlega þann þátt sem hv. þingmaður nefnir um stjórnsýsluákvarðanir sem varða í raun hagsmuni frjálsra félagasamtaka og lögaðila á Íslandi, sem geta þá verið í þeirri stöðu að ákvörðun er tekin í ráðuneytinu og það er enginn til að skjóta ákvörðuninni til eða kæra ákvörðunina til. Það er engin leið til að skjóta málinu til æðra stjórnsýslustigs, eins og er meginreglan í íslenskri stjórnsýslu. Þetta er enn og aftur dæmi um það hversu vanhugsað málið er. Það er í raun og veru ekki hugsað til enda. Með þessari fljótaskrift er verið að búa til nýtt vandamál, verið að búa til ný verkefni sem stafa af þessari niðurstöðu. Það vantar líka algerlega í greinargerðina með frumvarpinu að gallar þeirrar nálgunar séu reifaðir. Hverjir eru ókostir ákvörðunarinnar sem hér er tekin? Það sem hv. þingmaður nefnir er sannarlega einn af þeim, að málsmeðferðin sé ekki tryggð og réttaröryggið ekki tryggt með þeim hætti sem ásættanlegt er á Íslandi.

Af því að hv. þingmaður nefndi Fiskistofu, sem er dæmi um verkefni sem var inni í ráðuneyti og var tekið þaðan út, er ég þess fullviss að ef við færum yfir þróun Stjórnarráðsins á Íslandi gætum við listað upp fjöldamörg slík verkefni sem færð eru úr ráðuneytinu og til stjórnsýslustofnana, ekki síst vegna þess að mikilvægt er að tryggja réttaröryggi en líka vegna þess að ráðuneytið þarf að fá ákveðið næði til að vera vettvangur pólitískrar stefnumörkunar og heildarsýnar til framtíðar á meðan stofnanirnar hafa tiltekin og skilgreind heildarhlutverk með höndum sem ráðast af löggjöfinni á hverjum tíma.