144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[20:54]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður, miðað við ræður hennar, hefur kristilegan anda í hjarta sínu. Hún er alltaf til í að fyrirgefa þótt hún slái reyndar stundum fast þegar tekist er á. Ég hjó eftir því að í andsvari sínu áðan sagði hv. þingmaður að hún væri enn þá til í að vinna með ráðherranum. Ég tek undir það. Ég sagði í upphafi minnar ræðu og lagði á það mikla áherslu að sannarlega væri ég til í að beita mér fyrir því að að minnsta kosti minn flokkur mundi taka höndum saman með ráðherranum til að skera í burt ýmsa skafanka sem hann hefur sýnt fram á. Þeir eru minni háttar en það verður að hafa samráð.

Þetta er ákvörðun sem er tekin og eftir þá umræðu mundi ég kannski segja: Af því bara. Hæstv. ráðherra hefur engin rök, hann talar ekki við okkur, hann situr bara þrumur í sæti sínu og svarar ekki spurningum, þannig að mig langar til að spyrja hv. þingmann: Telur hún, eftir að hæstv. ráðherra hefur eins og fíll troðið þetta postulín undir fótum, að hægt sé að líma þessa mola saman og taka aftur upp félagslegt, eðlilegt samráð við þennan málaflokk, sem hefur alltaf verið aðall þingsins?