144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[21:24]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið hér og taka undir með hv. þingmanni, mér finnst mjög dapurlegt hve lítil samræða á sér stað, sérstaklega þegar í ljós kemur að ítrekað hefur verið mælt fyrir málum á þessu þingi í vetur sem svo hreinlega steyta á skeri eftir því sem umræðunni vindur fram. Við getum rifjað upp náttúrupassa til að mynda, við getum rætt um rammaáætlun, sem er komin í miklar ógöngur, manni finnst eins og ítrekað sé verið að koma hér með tillögur af hálfu ráðherra eða meiri hluta í nefndum sem eru illa ígrundaðar og síðan er umræðan ekki tekin eða samræðan ekki tekin. Ég tek undir það með hv. þingmanni að auðvitað er enginn bragur á þessu.

Ég spyr líka eins og hv. þingmaður: Hvar eru hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins til að mynda í þessari umræðu? Hver er afstaða þeirra til þessa máls eða hafa þeir ekki mótað sér neina afstöðu, hafa þeir ekki kynnt sér málið? Maður kynni að draga þá ályktun af því að fylgjast með þessum umræðum að minnsta kosti.

Mig langar að spyrja hv. þingmann sérstaklega út í eitt atriði, af því að hún hefur nú reynslu af því að veita ráðuneyti og ráðuneytum forstöðu. Það sem gefið er upp sem markmið þessarar breytingar — og ég set stórt spurningarmerki við að breytingarnar þjóni því markmiði — í greinargerð, með leyfi forseta, er að betri heildarsýn náist á málaflokkinn, betur verði tryggt að stefnu Íslands í málaflokknum sé framfylgt, auðveldara verði að móta og framfylgja áherslum Íslands og aukin tækifæri skapist til að hrinda stefnu Íslands í málaflokknum í framkvæmd með markvissari hætti.

Þetta hljómar allt mjög vel en ekki eru nefnd nein dæmi um að illa hafi gengið að framfylgja stefnu Íslands í málaflokknum hingað til. Og það sem mig langar að spyrja hv. þingmann út frá hennar reynslu af því að stýra ólíkum ráðuneytum: Hverju breytir það að hafa slíkar fagstofnanir inni í ráðuneytinu beinlínis? Er ekki hægur vandi fyrir ráðherra að hrinda stefnu sinni í framkvæmd þótt um sé að ræða sjálfstæðar fagstofnanir?