144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[21:27]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fór ekki yfir það í ræðu minni að mér finnst líka undarlegar þversagnir í greinargerðinni og síðan því sem ritað hefur verið um stofnunina. Í öllum þeim úttektum, sem vísað er í í greinargerð með frumvarpinu og í öðrum þeim úttektum sem gerðar hafa verið, er stofnuninni einmitt hrósað fyrir það að hún sé skilvirk. DAC tekur það til dæmis sérstaklega fram að Ísland sé að mörgu leyti til fyrirmyndar í þessum málum og vinni vel og nýti vel þá fjármuni sem fara til málaflokksins, þannig að mér finnast þversagnir þarna. Það er ágætt að grípa til einhverra svona orða, þegar menn eru að reyna að framfylgja því sem þeir ætla sér, en það eru engin dæmi og mér finnst það heldur verra.

Ég veit ekki til þess, og ég hugsa að aðrir ráðherrar núverandi ríkisstjórnar mundu örugglega segja það sama, að það sé vandamál að vera með ráðuneyti og síðan öflugar stofnanir sem sjá um framkvæmdina. Það skilar sér alltaf í gegn, lög samþykkt frá Alþingi eða stefnumörkun sem kemur úr ráðuneytunum skilar sér mjög vel til stofnana. Ég skil ekki hvaða hindranir eiga að vera þar í vegi. Auðvitað er það þægilegra ef menn vilja hafa það þannig að þeir sitji inni á skrifstofunni sinni haldandi í spottann beinustu leið og taki allar ákvarðanir sjálfir beint, þá er þetta væntanlega auðveldara fyrirkomulag. En það er ekki þannig stjórnsýsla sem við viljum sjá stundaða hér. Við viljum hafa fagfólkið í þessu og ég held að því sé betur fyrir komið í sérstakri stofnun, eins og á við um aðrar stofnanir sem fara með framkvæmd verkefna af þessu tagi.

Ég held að við ættum þá frekar að spyrja ráðherrann um það hvaða dæmi hann hafi um að stofnun af þessu tagi hafi verið tekin inn í ráðuneyti, að heil stofnun hafi verið tekin beint inn í ráðuneyti. Ég held að hann geti ekki nefnt okkur nein dæmi þar um.