144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[21:36]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nefnilega nákvæmlega þannig að ef einhver sannfæring væri að baki málinu hjá stjórnarflokkunum mundi fólk ræða það við okkur, en það gerir það enginn. Það er því ekkert óeðlilegt þó að vangaveltur okkar og spurningar þróist út í það að menn fari að reyna að geta í eyðurnar og við förum að reyna að svara þessum spurningum sjálf þegar enginn viðmælandi er hér til þess að eiga við okkar orðastað eða hefur fyrir því að reyna að segja okkur hvernig hlutirnir eiga að vera og hvernig þeir sjá þá fyrir sér. Það hefur enginn fyrir því hér og þá endar umræðan með því að við förum að geta í eyðurnar.

Við erum búin að sjá mörg mál fara þannig núna í vetur þar sem ekki virðist hafa verið alvörustuðningur að baki hjá stjórnarflokkunum í gegnum málin. Þá hafa þau farið þannig til umræðu og enginn hefur verið hér til að verja þau eða tala fyrir þeim. Og hvar hafa þau mál endað? Þau hafa endað úti í skurði og hafa verið nefnd hér nokkur dæmi um það. Ég veit því ekki hvað verið er að eyða tíma okkar í hér í þinginu, fyrir utan það að manni sýnist að þetta mál sé með þeim hætti að of mörgum spurningum sé ósvarað til þess að við séum tilbúin til þess að ræða slíka U-beygju eins og frumvarpið boðar þegar kemur að þróunarsamvinnu.

Varðandi það sem hv. þingmaður spurði sérstaklega um þá hvarflar auðvitað að manni þegar búið er að veikja ráðuneyti svona hressilega eins og gert hefur verið við utanríkisráðuneytið, að tilhneigingin geti orðið sú að menn fari að reyna að toga allt til sín og reyna að búa til eina sterka heild í staðinn fyrir að vera með tiltölulega veikt ráðuneyti og veikburða stofnanir. En ég tel ekki að það sé svo í þessu tilfelli. Ef sú er raunin tel ég það óráðlegt (Forseti hringir.) vegna þess að það er ákveðin vörn í því fyrir ráðuneytið að hafa þennan málaflokk sérstakri stofnun.