144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[21:58]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Möller fyrir ræðu hans og það verður eiginlega að viðurkennast að það stakk mig sem hann sagði í upphafi ræðunnar að honum fyndist framkoma stjórnarmeirihlutans gagnvart þinginu ekki ásættanleg, ekki viðunandi, að taka ekki þátt í hverri umræðu. Við höfum gert athugasemdir við það, en mig langaði að ræða þetta aðeins við hv. þingmann, því að hann hefur náttúrlega verið hér um nokkurra ára skeið. Mín upplifun í öllu falli er sú að þetta brenni við meira en ég hef áður kynnst, að hv. þingmenn flokkanna sem mynda stjórnarmeirihluta láti sig vanta í umræður eða að minnsta kosti taki ekki þátt í þeim.

Af því að ég fór að velta fyrir mér hvort tilfinning mín væri rétt eða röng gáði ég á hinn nýja, ágæta vef þingsins þar sem hægt er að greina ræðutíma milli einstaklinga, og það er algjörlega á hreinu að hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans hafa greinilega ekki mjög brýna þörf sem knýr þá hingað upp í ræðustól til að taka umræðuna um þau mál sem þeir þó ætla að samþykkja. Ég velti þess vegna fyrir mér hvort sannfæring hv. þingmanna stjórnarmeirihlutans sé svo lítil að þeim nægi að sitja bara og fylgjast með umræðunni einhvers staðar, hvort þeir hafi virkilega enga þörf fyrir að koma hér upp og svara þeim spurningum, þeim athugasemdum, þeirri gagnrýni sem snýst um frumvarpið.

Hitt sem mig langar að nefna við hv. þingmann er sú staða sem virðist nánast vera viðurkennd í greinargerð með frumvarpinu, þ.e. að ekki sé neitt að í framkvæmd þróunarsamvinnu, í rauninni sé hún mjög góð, en eigi að síður þyki ástæða til að fara í umfangsmiklar stofnanabreytingar og síðan eru talin upp almenn markmið til að skerpa á heildarsýninni, svo að ég dragi þau almennu markmið saman í eina línu. Mig langar að spyrja hv. þingmann um þetta vinnulag, hvort hann telji að vinnutíma þingsins (Forseti hringir.) sé vel varið í slíkar strúktúrbreytingar á tímum þar sem mörg önnur brýn mál eru líka undir.