144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[22:01]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég þakka hv. þingmanni — ekki fyrir að lækka ræðupúltið svona mikið í hvert skipti — heldur fyrir þær spurningar sem hv. þingmaður setur hérna fram um framkomu meirihlutaþingmanna gagnvart þinginu.

Ég hef verið mjög hugsi yfir þessu, sérstaklega á þessu kjörtímabili. Þetta er gjörbreyting frá öllum þeim kjörtímabilum sem ég hef setið á Alþingi. Hér hafa fulltrúar allra flokka viðkomandi nefndar að minnsta kosti, ef ekki fleiri, setið í þingsal, hlustað á umræður og tekið þátt í umræðum, vegna þess að 1. umr. er svo mikilvæg þar sem málin eru reifuð. Þingmenn geta spurt hæstv. ráðherra og fengið svör sem veganesti inn í nefndarstarfið.

Skal ég nú taka eitt dæmi. Margfræg kerfisáætlun, sem einhverra hluta vegna, ég veit ekki hvort það var tímaskortur eða hvað, var ákaflega lítið rædd við 1. umr. af öllum þingmönnum, það var ákaflega lítil umræða. En síðan kom heldur betur á daginn við 2. umr. að þar voru mjög skiptar skoðanir. Það er þetta sem ég segi og gagnrýni í störfum meirihlutaþingmannanna, ég tel mig til dæmis sárasjaldan hafa getað átt orðaskipti í andsvörum við ræðum stjórnarþingmanna um lagafrumvarp við 1. umr. eða 2. umr. Þetta fer mest fram á því sem kallað er Störf þingsins núna. Ég hef sárasjaldan getað spurt aðaltalsmenn skuldaleiðréttingarinnar hjá Framsóknarflokknum, þingmenn sem hafa talað um það mál, sjaldan getað spurt þá, vegna þess að þeir ræða það eingöngu í Störfum þingsins.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég sakna þess að fulltrúar meirihlutaflokkanna, sex þingmenn af níu (Forseti hringir.) í utanríkismálanefnd skuli ekki sitja hér, hlusta og taka þátt í umræðunni.