144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[22:05]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst að því sem ég gat ekki svarað í fyrra andsvarinu, um stofnanabreytingu og vinnulagið. Ég hef hugsað til þess í umræðunni í dag þar sem ýmislegt hefur verið gagnrýnt í þessu ferli, að vísu er skrifað einhvers staðar í frumvarpinu um einhvern samráðshóp, að ég sem þáverandi samgönguráðherra beitti mér fyrir skoðun á sameiningu samgöngustofnana og að skipta þeim upp, annars vegar framkvæmdastofnun og hins vegar stjórnsýslustofnun.

Hvernig hófst það ferli? Það hófst með því að ég óskaði eftir stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á starfsemi Siglingastofnunar út af ákveðnu máli og Vegagerð, að mig minnir, var tekin mikið inn í það. Í kjölfar þeirrar stjórnsýsluúttektar komu ákveðnar tillögur sem voru gott veganesti, góðar tillögur. Í framhaldi af því setti ég í gang tvo ef ekki þrjá vinnuhópa, dálítið stóra, sem fóru yfir þetta allt saman, greindu þetta, ræddu við starfsmenn o.s.frv. og að lokum eftir töluvert langan tíma og mikla vinnu, marga fundi, skiluðu þeir tillögum um hvernig það yrði sett upp.

Það leiddi svo til þess að frumvörp voru flutt og Alþingi samþykkti að sameina framkvæmdastofnanirnar í eina stofnun sem heitir Vegagerðin, þ.e. framkvæmdadeildina í Vegagerðinni og Siglingastofnun, og skipta svo upp stjórnsýsluhlutanum á báðum þeim stofnunum plús Flugstoðum og búa til stjórnsýslustofnun samgöngumála. Ég held að þetta sé miklu, miklu betra ferli og taka má fleiri dæmi þar sem fulltrúar flokka komu að vinnu við undirbúning stórra mála og stórra frumvarpa sem leiddi til þess að það var sett hingað inn. Ég geymi það þar til síðar, ég hef ekki meira um það að segja. En það sem ég hef gagnrýnt hér, mér (Forseti hringir.) þykir miður, virðulegi forseti, að þurfa að nefna þetta dæmi um fjarveru stjórnarþingmanna við umræðuna, mér þykir það miður og mér þykir leitt að (Forseti hringir.) að gera það en það er hins vegar nauðsynlegt vegna þess að þetta er ljóður á störfum þessara hv. þingmanna og ríkisstjórnarmeirihlutans.