144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[22:10]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sem svar við því sem hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir fjallar hér um og þakkar fyrir þessa upprifjun á sögunni um upphaf þess að Þróunarsamvinnustofnun var sett á fót í tíð Ólafs heitins Jóhannessonar sem utanríkisráðherra, svo að það komi skýrt fram, ekki sem forsætisráðherra, og það sé svo verkefni hæstv. utanríkisráðherrans Gunnars Braga Sveinssonar, flokksbróður hans og af sama svæði, að leggja hana niður.

Jú, mér finnst þetta virkilega vond stjórnsýsla. Mér finnst þetta bera þess merki að menn hafi verið að pukrast með þetta, ef til vill látið skrifa skýrslu þar sem ná má í einhverja þætti sem fóður í þetta, eins og hér hefur verið talað um, en umræða um skýrsluna hefur ekki farið fram, hvað þá samstarf, samstarf og samvinna þvert á flokka, allra flokka hér. Þróunaraðstoð á að vera hafin yfir flokkadrætti eða flokkspólitískar línur. Við eigum að geta sameinast um það. Gott ef það hefur ekki meira að segja oft verið þannig við fjárlagagerð að það hefur verið samþykkt samhljóða í þau fáu skipti sem okkur hefur tekist að auka framlag til þróunarsamvinnu? Það gerðist nota bene í tíð síðustu ríkisstjórnar allhressilega þrátt fyrir þá miklu erfiðleika.

Þetta er vond stjórnsýsla. Samstarfið var ekkert og ég harma enn einu sinni þann flumbrugang sem virðist eiga sér stað í svo mörgum ráðuneytum núverandi hæstv. ríkisstjórnar við að setja fram svona mál. Eitt málið er nú nýliðið en var flutt af sama ráðherra og er nú þannig að enginn skilur þá niðurstöðu sem þar er nema Evrópusambandið, sem (Forseti hringir.) lítur á okkur að sjálfsögðu áfram sem aðildarumsóknarþjóð.