144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[22:24]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég tek undir með hv. þm. Halldóru Mogensen, forgangsröðunin hérna er óskiljanleg, það er algjörlega óskiljanlegt að við sitjum hér með vanbúið frumvarp sem ég á eftir að koma betur að í ræðu minni hér á eftir. Eina ferðina enn þurfum við í stjórnarandstöðunni að koma upp á kvöldfundi þegar klukkan er að verða hálfellefu og kvarta yfir því að hérna sjást ekki stjórnarþingmenn. Ég ætla að vísu að segja að hv. þm. Frosti Sigurjónsson sem á sæti í utanríkismálanefnd hefur verið hér mestan part í dag en hann hefur ekki látið svo lítið að segja eitt orð við okkur hin, enda virðist stjórnarmeirihlutinn telja okkur ekki (Forseti hringir.) viðlitsins virði, að hann þurfi bara ekkert að eiga orðastað við okkur. Það er aldeilis að það er komið illa fyrir þessari þjóð að vera með svona ríkisstjórn.