144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[22:27]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég veit auðvitað ekki hvernig þetta hefur verið áður, ég hef kannski ekki fylgst það vel með Alþingisrásinni, en ég hef alla vega upplifað það á þessu þingi að í 1. umr. erum við yfirleitt að tala við okkur sjálf. (Gripið fram í: Og í 2. umr.) Og jafnvel í 2. umr. En það væri mjög hressandi ef það væru að minnsta kosti andsvör frá stjórnarliðum því að það mundi halda okkur á tánum og maður mundi kannski vanda sig enn meira. En ég vil þó segja að hæstv. ráðherra situr í salnum og hlustar og fer vonandi héðan út með þann fróðleik og þá visku með sér sem fellur hér af vörum okkar og tekur tillit til þess. En það eru mörg dæmi um það að ráðherrar séu ekki einu sinni viðstaddir. Ég man að þegar hæstv. forsætisráðherra tilkynnti að hann hlakkaði mjög mikið til umræðunnar, hvort það var skuldaniðurfellingin eða hvað það var, en svo fór hann. Maður fær það á tilfinninguna að stjórnvöldum og ráðamönnum þyki við ekkert sérstaklega skemmtileg.