144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[22:39]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er nú þannig að þingmenn eru misbænheitir þegar þeir koma upp í ræðum undir þessum lið en hv. þingmaður Katrín Jakobsdóttir held ég að hafi nú slegið öll met þegar hún kallaði eftir því áðan að menn sem hefðu ástríðu fyrir þessu frumvarpi létu sig það varða. Hún var varla búin að ljúka orðinu þegar í salinn kom hv. þm. Birgir Ármannsson, sem við vitum öll að brennur heitar fyrir góðum málstað en flestir aðrir.

Hlýt ég þá að spyrja hv. þingmann hvort hann komi ekki hér upp og útskýri það hvort Sjálfstæðisflokkurinn sé enn þá þeirrar skoðunar sem hann var þegar núverandi formaður flokksins var formaður utanríkismálanefndar 2008 og vann með mér að því að tryggja samþykki allra flokka á þingi við frumvarp um þróunarsamvinnu. Það var stefna Sjálfstæðisflokksins þá að það ætti að vera mál sem friður yrði um meðal allra stjórnmálaflokka.

Er Sjálfstæðisflokkurinn enn þá þeirrar skoðunar? Hefur þá ekki hv. þingmaður skömm á þeim vinnubrögðum að leggja frumvarpið fram án samráðs við aðra flokka? Mér finnst að hv. þingmaður geti ekki snuðað okkur um að flytja hér ræðu um (Forseti hringir.) afstöðu sína til málsins við 1. umr. svo að við fáum að heyra með hvaða hætti hann vill taka á málum.