144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[22:46]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þá heldur þessi umræða áfram. Ég ætla að segja eins og er að ég er ekkert hissa á því að hæstv. utanríkisráðherra hafi ekki ráðfært sig við þingið eða mjög marga, ég hef ekki alveg áttað mig á því við hvern hann hefur ráðfært sig áður en hann lagði af stað í póstferðina austur í álfu.

Ég verð hins vegar að segja að ég er mjög hissa á því af hverju hæstv. ráðherra ákveður að fara svona fram með þetta frumvarp, vegna þess að þá er náttúrlega alveg öruggt hvað varðar bréfið fræga að þar hefði hann fengið mikla andstöðu og hefði ekkert komist áfram með málið og enginn hefði verið tilbúinn til að tala neitt við hann um það. Og honum hefur verið bent á það, sem er alveg ljóst, að fólkið í landinu vill fá að kjósa um það mál, þ.e. aðildarviðræðurnar um Evrópusambandið, fólki var lofað því fyrir síðustu kosningar. Þess vegna fóru kannski þessar kosningar eins og þær fóru, að hluta til, vegna þess að fólk lét Evrópumálin sig engu skipta í þeim kosningum. Og þess vegna skrifuðu 56 þúsund manns undir áskorun um að haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um málið, þess vegna mætti fjöldi fólks hérna fyrir utan í fyrravetur og þess vegna mættu 8 þúsund manns hérna fyrir utan fyrir tíu dögum síðan eða hvað það var, eftir að hæstv. ráðherra fór með bréfið. Hæstv. utanríkisráðherra hefur auðvitað vitað það því að það verður nú ekki sagt um hæstv. ráðherra að hann hafi ekki alla burði til að vita það. Auðvitað datt honum ekki í hug að fara í eitthvert samráð eða samkrull með það.

En þetta frumvarp, virðulegi forseti, það er algjörlega óskiljanlegt af hverju hæstv. ráðherra kaus ekki fremur að hafa samráð við stjórnarandstöðuna eða bara við alla flokka á þingi því að nú erum við meira að segja farin að efast um það hvort hinn stjórnarflokkurinn sé með í liðinu. Nú er orðið ljóst að formaður utanríkismálanefndar, sem maður hefði haldið að stæði hér við hlið ráðherrans í þessu máli og flytti það með honum, hefur kosið að láta ekkert í sér heyra, þannig að nú förum við meira að segja að efast um hvort Sjálfstæðisflokkurinn, samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn, hafi verið með þegar málið var undirbúið. Það er því alveg stórfurðulegt og ég er mjög hissa á þessum vinnubrögðum hæstv. ráðherra vegna þess að hitt hefði verið svo miklu auðveldara. Og ef eitthvað þurfti að laga í því hefði það verið gert á eðlilegan máta í þinginu.

Í stað þess stekkur hæstv. ráðherra fram með frumvarp sem gengur út á það eitt að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun. Til hvers? Jú, eins og hæstv. ráðherra sagði sjálfur í framsögu sinni í dag fer stærsti hluti fjármunanna sem fara í utanríkisráðuneytið, í þessa málaflokka. Og þess vegna vilja hann og ráðgjafar hans í ráðuneytinu fá þessa peninga inn í ráðuneytið vegna þess að þeir náttúrlega hafa upplifað það, sem hv. þm. Kristján Möller fór svo vel í gegnum fyrr í dag, að við fjárlagagerðina 2014 var utanríkisráðuneytið skorið niður við trog. Og þeir vita líka það sem formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hefur sagt, að það var bara fyrsta skrefið að hækka ekki framlögin. Nú er komið að öðru skrefi og þá á að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun og enn á að lækka fjárveitingarnar. Þess vegna vilja hæstv. ráðherra og embættismennirnir fá alla peningana inn til sín þannig að þeir geti ráðið þeim meira en þeir gera núna, hafi úr meiru að spila. Ég held að ég hafi séð það réttilega að 40% af því sem fer til þróunarverkefnanna fari í Þróunarsamvinnustofnunina þannig að þetta eru ekkert litlir peningar.

Það er ekkert ljótt að segja það, það er bara almenn staðreynd í lífinu öllu og í svona kerfi eins og við búum við að auðvitað eru alltaf allir að safna að sér valdi og peningum og það er heldur ekkert ljótt að segja að það er alveg klárt hérna að þetta frumvarp er runnið undan rifjum embættismanna í utanríkisráðuneytinu og það eru þeir sem mæla mest með því. Það er auðsjáanlega munur hér á, að minnsta kosti á því sem við heyrum hérna og skoðun þeirra, pólitískur munur. Nú eru þeir allt í einu heppnir, embættismennirnir sem vilja fara þessa leið og hafa barist fyrir því í þó nokkurn tíma, held ég, að taka þetta allt inn í ráðuneytið, að nú hafa þeir ráðherra sem hlustar á þá og fer að ráðum þeirra í þessu efni. Enda var eitt af því sem hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni að með þessari breytingu gætu þeir við boðið starfsmönnum ráðuneytisins fjölbreyttari störf. Já, já, það er ágætt, þá getum við boðið þeim fjölbreyttari störf. Þá geta þeir farið í flutningsskyldu og verið sendiherrar eða aðstoðarfulltrúar eða eitthvað í hvítum fötum í Afríku í stað þess að láta fagfólk sjá um þá vinnu og í stað þess að láta áhersluna beinast að verkefninu en ekki því hvort fólk sé flutt út og suður.

Mér finnst það ekki hafa komið fram almennt í umræðunni í dag að það er alveg ljóst af frumvarpinu að enginn fjárhagslegur sparnaður verður, enginn. Mér finnst það ekkert einu sinni svífa yfir vötnum. Það á ekki að verða neinn fjárhagslegur sparnaður, það er ekkert í dæminu, það er ekki hluti af jöfnunni að spara eitthvað í þessu, heldur snýst þetta allt um að loka fagstofnuninni og taka allt inn í ráðuneytið þannig að hægt sé að fara í flutningaskyldu og eitthvað álíka. Og þá fylgir því náttúrlega aukinn kostnaður sem fer þá í eitthvað annað því að þá þarf að endurmennta fólkið í ráðuneytinu meira en gert hefur verið til þessa. Hv. þm. Árni Páll Árnason rakti vel í ræðu sinni fyrr í dag hvernig sérhæfingin í ráðuneytinu er öðruvísi og hvernig verkefnin sem eru í þróunarsamvinnunni eru allt önnur en í hinni venjulegu utanríkisþjónustu.

Svona held ég nú að liggi skringilega í þessu öllu saman. Nú erum við búin að ræða þetta mál í ég veit ekki hvað marga tíma, fimm, sex eða sjö, en það kom í ljós strax á fyrsta klukkutímanum að frumvarpið er óþarft vegna þess að sagt er að með því að gera hlutina eins og lagt er til í þessu frumvarpi verði komið í veg fyrir skörun á stefnumótun og framkvæmd og þá sé einnig dregið úr óhagræði og tvíverknaði í rekstri og stjórnun. Hæstv. ráðherra var spurður um það í andsvari þannig að hann varð að svara og hann verður náttúrlega að svara andsvörum þó að hann sitji svo bara það sem eftir er dagsins og svari ekki neinu af því sem hér er spurt um, en þarna varð hann að svara. Í andsvari hæstv. ráðherra kom fram að ekkert af þessu væri fyrir hendi. Það eru bara dylgjur um að ekki sé allt í lagi í þessum rekstri, eins og einhver hv. þingmaður sagði hér í dag. Reksturinn gengur bara vel og hefur meira að segja komið í ljós að Þróunarsamvinnustofnun er ein af fáum stofnunum ríkisins sem alltaf heldur sig innan fjárlaga, hún er næstum því fyrirmyndarstofnun eins og umboðsmaður Alþingis.

Síðan hefur einnig komið fram í umræðunni í dag og þeir sem lesið hafa vel hafa sýnt fram á það að í þessum greinargerðum er misnotuð skýrsla frá DAC, þróunarsamvinnunefnd OECD. Þar er misfarið með staðreyndir. Gefið er í skyn að DAC mæli með einhverju sérstaklega sem það mælir ekkert með. „Det går inte“, forseti, ef ég má segja það. Það gengur ekki að bera svona fram og það gengur ekki að fara svona með þennan málaflokk sem hefur hingað til verið góð samstaða um í þinginu og er ekki nokkur einasta ástæða til að hleypa í svona stjórnmálatog eins og við erum í hér, það er engin ástæða til þess.

Mig langar í lokin aðeins að bæta við það sem rætt hefur verið svolítið í dag, þ.e. varðandi hina nýju samráðsnefnd eða stjórnunarnefnd eða hvað hún heitir sem setja á upp, sem allt í einu á að setja fimm þingmenn í líka. Þeir eiga örugglega að fara einu sinni á ári, annað hvert ár eða á tvo fundi á ári sem eiga kannski báðir að vera í Afríku, ég veit ekki um það, og skoða sig um. En eins og reyndar hefur komið fram í umræðunni í dag er það ekki leiðin til þess að þingið fylgist betur með og hafi meiri áhrif þarna, alls ekki.

Hins vegar finnst mér að það eigi að hugsa það mjög gaumgæfilega og ekki síst í ljósi þeirrar umræðu sem orðið hefur hér út af bréfinu og þingsályktunartillögunni sem við fáum ekki að tala um í þinginu, að kannski væri rétt að við skoðuðum það að breyta starfi utanríkismálanefndar og kljúfa hana kannski upp í einhverja Evrópunefnd og svo önnur utanríkismál. Þá gæti utanríkismálanefnd gefist betri tími til að fylgjast með þessum þætti utanríkismálanna sem skiptir gífurlega miklu máli. Ég er þeirrar skoðunar að við í þinginu þurfum að sýna þeim málaflokki betri og meiri rækt en gert hefur verið í þessu tilviki.

Svo að lokum, virðulegi forseti, langar mig að nefna hér einn þátt sérstaklega vegna þess að við höfum talað um peninga. Eitt sem komið hefur í ljós í umræðunni og þegar ég fór að kynna mér þessi mál er að Þróunarsamvinnustofnun fær peninga frá öðrum ríkjum, sem verður þá til þess að við getum tekið meiri þátt í þróunarverkefnum, tvíhliða verkefnum en við gætum ella. En auðvitað fáum við þá peninga aldrei ef ekki er sérstök þróunarsamvinnustofnun hér, og hvernig í ósköpunum eigum við að fá einhverja styrki inn í utanríkisráðuneytið? Nei, það gengur ekki. Við erum því að loka dyrum þarna, við erum alltaf að loka dyrum. Það er uppáhald utanríkisráðherrans, held ég, (Forseti hringir.) að loka dyrum.