144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[23:04]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af því að ég er nú best í því að skilja mannamál, og þá á ég við að ég skil ekki mikið í því þegar fólk notar miklar krúsídúllur, þá get ég ekki skilið það öðruvísi en svo að gefið sé í skyn að einhverjir hafi verið einhvers staðar og sagt og gert eitthvað sem ekki sé alveg í samræmi við vilja ráðuneytisins eða ráðherrans. En hins vegar eru engin rök færð fyrir því hér og fyrir utan þær dylgjur sem þarna eru og það sem er beinlínis ekki alveg farið rétt með varðandi athugasemdir DAC, þá höfum við svo sem ekkert í höndunum um þetta sem við getum bent á og rekið til baka, en við getum spurt ráðherrann hvað hann á við. Hvað er það sem hefur gerst? Svo má nú segja þar fyrir utan að ef það hefur gerst af hverju hefur ráðherrann þá ekki tekið í taumana? Ráðherrann hefur enn þá boðvald yfir þessari stofnun og ég mundi halda að það væri stórmál ef maður frétti af því sem ráðherra einhvers staðar að stofnanir sem heyra undir ráðuneyti sem maður er í ábyrgð fyrir gæfi einhverjar yfirlýsingar út og suður. Maður mundi nú reyna að kippa eitthvað í spottana til að stöðva slíkt.