144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[23:06]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Fram kom í máli hv. þingmanns í ágætri ræðu áðan að hún teldi að þeir sem fyrst og fremst mæltu með þessari breytingu væri ráðuneytið sjálft. Það verður ekki hjá því litið að greinargerðin er náttúrlega skrifuð í því hinu sama ráðuneyti. Hér er tel ég um að ræða algjörlega óboðlegan texta frá ráðuneyti og þar með ráðherranum um frammistöðu ríkisstofnunar. Hv. þingmaður segir: Ja, við verðum þá að spyrja ráðherrann hvort það sé fótur fyrir þessum dylgjum. Hæstv. ráðherra hefur sannarlega verið spurður um það í andsvörum við framsögu sína hér fyrr á fundinum og það voru engin svör. Það voru engin dæmi um það sem hér er talað um, að stofnun hafi brugðist hvað þessi atriði varðar. Það kemur engan veginn fram.

Mig langar til þess að biðja hv. þingmann að velta því fyrir sér hvort þessi greinargerð sé í raun og veru gervirökstuðningur, hvort þessi greinargerð sé í raun og veru einhvers konar pakkning utan um einhver önnur markmið, einhver pólitísk markmið sem gætu að hluta til snúist um að auka pólitísk tök ráðherrans á þróunarsamvinnu til þess að geta án mikillar fyrirhafnar breytt áherslum Íslands. Það er nú sannarlega þannig að þessi tiltekni stjórnarmeirihluti hefur breytt áherslum með því að draga úr fjárframlögum til þróunarsamvinnu. Meira að segja hefur hv. formaður fjárlaganefndar, Vigdís Hauksdóttir, gengið lengra og verið beinlínis á móti því máli og talað gegn því að menn beindu fjárstuðningi til þróunarríkja, sem er náttúrlega með ólíkindum og til skammar. Telur hv. þingmaður að það hangi saman með einhverjum hætti?