144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[23:13]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er nú kannski punkturinn í þessu, af hverju undirbjó ráðherrann málið ekki betur? Af hverju leitaði hann ekki samráðs við stjórnarandstöðuna í þessum málaflokki sem hingað til hefur verið lögð áhersla á að hafa samráð við? Það er líka þess vegna sem við níu þingmenn báðum um skýrslu, þ.e. skýrslu frá utanríkisráðherra um skipulag þróunarsamvinnu. Tekið er fram 21 atriði sem koma á fram í skýrslunni. Bara fyrsta atriði er þetta: Reynsla og töluleg gögn sem liggja til grundvallar því mati að sameiningin auki skilvirkni og hagræðingu og upplýsingar um hvort fyrir liggur hagkvæmnisúttekt sem styðji þetta mat. Þetta er bara fyrsta atriðið af 21 sem er beðið um í skýrslu sem er ekki komin.

Ég hitti um helgina mikinn kunnáttumann í þessum efnum, hann á reyndar sæti í þeirri nefnd sem núna er starfandi, 17 manna nefnd eða hvað það er, ég man ekki hvað eru margir í henni. Ég segi við hann: „Já, svo erum við að fá þróunarsamvinnustofnunarmálið inn á þing á þriðjudaginn.“ Og þá segir hann: „Nei, er skýrslan komin?“ Ég segi: „Nei, nei.“ Maðurinn segir: „Og ætlar þingið að fara að ræða um frumvarp utanríkisráðherra án þess að skýrslan sem beðið var um sé komin?“ Hann skildi bara ekki þessi vinnubrögð, varð alveg steinhissa á þeim. Ég tek undir með þeim ágæta kunningja mínum og vera alveg steinhissa á því að við séum að ræða þetta núna án þess að skýrslan liggi fyrir.